143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

orð innanríkisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Nú hefur það komið fram hér í þingstörfunum og í fjölmiðlum að hv. þm. Mörður Árnason telur sig vera með minnisblað undir höndum sem inniheldur persónuupplýsingar. Mig langar að beina því til forseta að hann aðstoði hv. þingmann við að finna leið til þess að upplýsa okkur, þingheim, um það hvernig minnisblaðið rataði til þingmannsins. Hér er um að ræða upplýsingar, eftir því sem þingmaðurinn segir, sem eru persónuupplýsingar sem hann á ekki að vera með.

Hvernig barst þingmanninum þetta minnisblað? Er þetta eitthvað sem þingmaðurinn ætlar sér, í ljósi þeirra göfugu markmiða sem hann taldi upp fyrr í fyrirspurnatíma um upplýst samfélag og að allt eigi að vera uppi á borðunum, að upplýsa okkur um? Hvar fékk þingmaðurinn þetta minnisblað? Ætlar hann að upplýsa okkur um það? Ætlar hann að snúa sér til lögreglunnar til þess að greina frá því hvernig þessar upplýsingar komust á hans borð?

Er þetta ekki atriði, herra forseti, sem forseti getur beitt sér fyrir að upplýsa okkur um?