143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Málefni Farice hafa lengi verið til umræðu þingsins. Í bankahruninu var það verkefni fært í fang ríkisins, ríkisábyrgð sett á það og svo gekk það í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu á árinu 2010.

Þeir sem deila hlut ríkisins í Farice eru Landsvirkjun og Arion banki og vil ég minna á að ríkisábyrgð á strengnum er nú tæpir 8 milljarðar. Það sem veldur mér ugg eins og staðan er núna er að Arion banki hefur sett hlut sinn í söluferli vegna þess að ríkið og Landsvirkjun eru móteigendur Arion banka. Tíminn verður að leiða í ljós hvort markaður er fyrir þetta hlutabréf Arion banka, en það sem málið snýst um nú eru þær ábendingar sem ríkisendurskoðandi hefur ítrekað komið fram með í skýrslum sínum um fjárhagsstöðu félagsins.

Þegar félagið fór í gegnum fjárhagsskipulagningu var gerður samningur við ríkið til fimm ára þar sem ríkissjóður var skikkaður til að leggja félaginu til fé. Ríkissjóður hefur nú þegar lagt fram 2,2 milljarða í hlutafé og greiðslurnar vegna þjónustusamningsins voru 225 millj. kr. árið 2012, 426 millj. kr. 2013, 397 millj. kr. fóru inn í fjárlög ársins 2014 og talið er að fjárþörfin frá ríkinu sé 400 millj. kr. árin 2015 og 2016. Hér er því um gríðarlega háar upphæðir að ræða sem fara þarna inn. Reksturinn er mjög dýr og hagnaðurinn lætur á sér standa. Því miður virðast vonir um gagnaversuppbyggingu hér í landi ekki ætla að ganga eftir á þessu tímabili samningsins.

Þar sem mjög var efast um að þetta væri ríkisframlag til strengsins tók ESA málið til umfjöllunar og taldi að um dulið ríkisfé væri að ræða. ESA lagði því til að þjónustusamningur yrði gerður við ríkið til að fara fram hjá þeim reglum.

Við vitum að nú eru uppi áform um að leggja hér annan sæstreng, Emerald-sæstrenginn. Þá hlýtur þjónustusamningur við ríkið að lenda í uppnámi vegna þess að þá verður hér virk samkeppni á milli aðila og þá mun ESA að ekki líta fram hjá því að þetta sé beinn ríkisstyrkur. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra:

1. Óttast hann að þjónustusamningurinn muni lenda í uppnámi verði hugmyndir um nýjan streng hér til landsins að veruleika?

2. Skuldir félagsins eru bundnar þessum skilmálum og lánaskilmálarnir eru raunverulega á þann hátt að hægt er að gjaldfella lánið einhliða standi félagið ekki í skilum við sína lánardrottna. Hefur verið samið við þá ár frá ári og nú standa einmitt yfir samningar við lánardrottna um að framlengja lánin eða líta fram hjá því að lánin eru í raun gjaldfallin. Óttast hæstv. fjármálaráðherra að lánin gjaldfalli og að ríkissjóður þurfi þá að leggja út fyrir þeim 8 milljörðum sem ríkið er í ábyrgð fyrir? Eins og staðan er nú lítur þetta ekki nægilega vel út.

Fjárlaganefnd hefur fengið aðila frá fyrirtækinu á sinn fund. Þeir komu fyrir fjárlaganefnd síðasta mánudag þar sem var farið yfir þessi mál. Þar sem fjárlaganefnd hefur eftirlitshlutverk með fjárreiðum ríkisins og þetta verkefni kemur sífellt inn á borð fjárlaganefndar í skýrslum Ríkisendurskoðunar vegna áhyggna ríkisendurskoðanda af framgangi verkefnisins hljótum við að beina athyglinni í þessa átt og vekja athygli á þessu í umræðu í þinginu, því að verkefnið er risastórt. Sér hæstv. fjármálaráðherra til lands í þessu máli ef ekki kemur til aukin sala inn á strenginn?