143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka heils hugar undir allt sem hv. þingmaður sagði hér á undan mér. Ég óttast pínulítið að í þessari umræðu leiðumst við út í einhverjar pælingar um það hvað sé hverjum að kenna og hvað hefði átt að gera og hver beri ábyrgð á hruninu og þessu öllu saman, sem margt er gott og satt, þetta er ábyggilega öllum að kenna o.s.frv., en mér finnst ofboðslega mikilvægt að við höldum því til haga að við þurfum að passa að allir séu sannfærðir um að við munum hafa nettengingamál í lagi. Það er afskaplega mikilvægt gagnvart erlendum aðilum. Eins og sá hv. þingmaður sem hér talaði sagði eru það ekki bara fjárfestar, en líka þeir. Það er ofboðslega mikilvægt erlendis að íslenskir stjórnmálamenn sýni að við munum passa að nettengingar til landsins séu í lagi. Við verðum að halda því til haga og fara ekki bara út í umræðuna um hverjum þetta sé að kenna eða hvað þetta sé allt slæmt heldur líka hvernig við ætlum að tryggja að netsambandið á Íslandi sé í lagi.

Mér finnst mjög mikilvægt að þetta fái sinn þátt í umræðunni þótt ég geri mér reyndar grein fyrir því að hér sé aðallega rætt um fjármálin á þeim forsendum (Gripið fram í: Ríkisábyrgðina.) og ríkisábyrgð, hrun o.s.frv. en það er ofboðslega mikilvægt að umræðan snúist ekki bara um það gagnvart erlendum aðilum.