143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:36]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil sem aðrir þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Ég segi jafnframt að í störfum okkar í fjárlaganefnd hafa málefni Farice verið talsvert fyrirferðarmikil og kveikt margar spurningar sem að hluta til hefur verið svarað hér og forsaga málsins ágætlega rakin.

Ég vil kannski fá að snúa mér að öðrum þáttum þessa máls þar sem mér finnst mikilvægara að horfa til framtíðar. Ég skora þar með á hæstv. fjármálaráðherra að taka nokkur atriði til skoðunar því að ákaflega nauðsynlegt er fyrir fjárlagagerð næstu ára að við förum að fá sólarlag í þetta blæðandi ríkisgreiðslusár sem þarna hefur verið opnað og að farið verði yfir það í fyrirtækinu hvenær mögulegt er að við förum að sjá lækkandi greiðslur þarna inn. Eins og kemur fram í fjárlagagerðinni og undirbúningi mála fyrir þetta ár var beðið um heilmikla peninga og það er algerlega óásættanlegt að við sjáum ekki til lands í því.

Í öðru lagi vil ég gera sérstaka athugasemd við að þetta verkefni sé núna vistað hjá fjarskiptasjóði. Í sjálfu sér tengist löggjöf um fjarskiptasjóð algerlega verkefninu en ég vil Farice-samninginn þar út vegna þess að við ætluðum fjarskiptasjóðinn til annarra verkefna en að standa undir því hlutverki sem honum hefur verið ætlað í þessu máli. Raunveruleikinn er að sá Farice-samningur sogar núna upp tekjur fjarskiptasjóðs sem við ætluðum til þeirra hluta að byggja upp öflugt fjarskiptakerfi á Íslandi.

Ég legg tvennt til í þessari umræðu: Að við vinnum í því á árinu að fá sólarlag og ná utan um þær greiðslur sem við þurfum að inna af hendi inn í þennan samning, og að koma Farice-samningnum út úr fjarskiptasjóði og setja þá utan um hann viðeigandi ramma.