143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er svolítið hugsi yfir því hvað umræðan gefur af sér. Eins og ég hef sagt eru vandamál hvað varðar rekstur á þessum strengjum hluti af áhrifum efnahagskreppunnar sem riðið hefur hér yfir. Hér er umræða um 8 milljarða ríkisábyrgð á þessu fyrirtæki.

Ég vil taka annað dæmi. Ríkið fjármagnar innviðabyggingu eins og vegi, þar með talin jarðgöng. Þessi upphæð er lægri en að byggja t.d. ein jarðgöng sem eru borguð beint úr ríkissjóði. Hvers vegna segi ég það? Ég segi það vegna þess að ef við hefðum haft góða stöðu 2007 og bara borgað Danice-strenginn beint úr ríkissjóði eins og aðrar vegaframkvæmdir, vegna þess að þetta er ákveðinn vegur, þetta er fjarskiptavegur, nauðsynlegur vegur fyrir allar þjóðir. Það er rétt sem hv. þm. Róbert Marshall sagði hér áðan varðandi gamla strenginn. Gamli Cantat-3 sæstrengurinn var að verða ónýtur og hafði ekki nægjanlega flutningsgetu. Danice-strengurinn var talinn nauðsynleg viðbót til hringtengingar og sem varaafl vegna komu gagnavera, en þó ekki bara vegna þess, við skulum líka hafa það í huga; það var bara vegna reksturs samfélagsins á Íslandi.

Við værum ekkert að ræða þetta núna ef við hefðum fjármagnað kaupin beint úr ríkissjóði eins og aðrar vegaframkvæmdir. Við borguðum beint úr ríkissjóði fjarskiptavæðingu Íslands, að koma netsambandi til allra byggða. (Gripið fram í.)Það fjármögnuðum við beint, tókum peninga beint úr ríkissjóði til þess og þannig má lengi telja. Aðalvandamálið er efnahagshrunið, eins og ég hef áður sagt. Þau miklu og góðu (Forseti hringir.) áform sem uppi voru um uppsetningu netþjónabúa hér á Íslandi gengu ekki eftir. Strengurinn er fyrir hendi og allir þessir innviðir og áhugasamir aðilar geta komið og sett upp slíkan rekstur hér á Íslandi.