143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:44]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Vegna þess sem fram kom í máli hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar þá er þetta auðvitað mikill kostnaður sem um ræðir og há ábyrgð sem hvílir á ríkinu. Það er enginn að bera á móti því.

Það sem ég sagði hins vegar í fyrri ræðu var að þetta væri óhjákvæmilegur kostnaður. Þetta eru nútímasamgöngumannvirki sem við erum að tala um. Einhvern tímann upp úr 1890 tóku menn þá ákvörðun á Alþingi að ráðast í smíði brúar yfir Þjórsá og fóru ábyggilega með nánast allan ríkissjóð í þá framkvæmd. Menn mátu það þannig að óhjákvæmilegt væri að tengja á milli byggða. Að sama skapi höfum við séð allan hringinn í kringum heiminn að þar sem menn hafa sett niður samgöngumannvirki, hvort sem það eru brýr og hafnir og upp á síðkastið flugvellir, verða til gríðarlega mikil vaxtarsvæði. Það eru virðisaukandi framkvæmdir. Það sem þarf að fara samhliða því að menn leggja í jafn mikla fjárfestingu og sæstrengir eru og jafn mikla flutningsgetu er einhvers konar áætlun til að láta mannvirkin standa undir sér.

Ég er sannfærður um að þeir strengir sem við styðjumst núna við og erum í ábyrgð fyrir munu gera það á endanum. Það þarf samt sem áður að fara meðvitað í að reyna að laða til landsins fyrirtæki sem skapa hér verðmæti. Það eru ekki eingöngu gagnaver sem hægt er að horfa til í þeim efnum, enda skapa þau í sjálfu sér ekki mjög mörg störf og ekki neitt sérstaklega mörg hátekjustörf. Hins vegar eru margvísleg önnur fyrirtæki, ef menn mundu einbeita sér að hugbúnaðarfyrirtækjum til dæmis, sem gera það og horfa mjög til þess að geta flutt mikið magn gagna til og frá landinu.