143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem skiptir miklu máli í margvíslegu samhengi. Hún skiptir máli í því samhengi sem málshefjandi kemur inn á og varðar ríkisfjármálin, framlög á næstu árum til strengsins. Ég get tekið undir með hv. þm. Haraldi Benediktssyni að vel gæti farið á því að við léttum því af fjarskiptasjóði og gerðum honum þannig betur kleift að rísa undir grunnhlutverki sínu varðandi innviðauppbyggingu á Íslandi, að létta verkefninu af sjóðnum til þess. Það gæti verið gott ráð.

Maður hefur að sjálfsögðu brotið heilann um hvað sé til ráða hér. Eitt er að velta fyrir sér hvort hægt sé að fá léttari fjármögnun fyrir félagið. Fjármögnun félagsins er nokkuð dýr. Þá kemur í ljós að ef greiða ætti upp skuldir félagsins fylgir því nokkuð dýrt uppgreiðslugjald þannig að það virðist ekki vera auðveld eða auðsótt leið.

Í öðru lagi: Er ekki hægt að rukka meira fyrir umferðina um strenginn? Nei, það er ekki heldur auðvelt vegna þess að það er bundið í samninga frá því fyrir nokkrum árum. Þessu gati verður því ekki lokað með gjaldskrárhækkunum. Við hljótum í grunninn að vera sammála um að við rekum þetta til að það standi undir sér.

Þá er það þriðja leiðin, og hún hefur mikið verið til umræðu hér, sem er að reyna að auka umferðina um strenginn. Það er svo skrýtið með umferðina á internetinu að magn gagna getur verið ofar manns venjulega skilningi þegar kemur að nýrri tækni. Þannig er til dæmis einn viðskiptavinur um þennan streng, einn viðskiptavinur, suma daga með meiri umferð um strenginn en allt Ísland að öðru leyti.

Það segir okkur talsvert mikla sögu um það hvaða möguleikar eru í boði ef okkur tekst að laða til landsins eða í viðskipti við félagið fleiri slíka viðskiptavini sem mundu margfalda alla Íslandsumferðina (Forseti hringir.) á hverjum degi. Sem betur fer er verið að vinna að því og við höfum ekki allt í hendi okkar hvernig það tekst til, en það þarf að huga að öllum þeim þáttum sem ég nefndi áðan til að loka því rekstrargati sem félagið er með.