143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það ákaflega linkuleg afstaða sem kemur fram í nefndarálitinu. Ég tek skýrt fram, eins og komið hefur fram í umræðum áður, að ég er mikill stuðningsmaður þess að þetta mál sé skoðað til þrautar og hratt. Mér finnst það ekki þinginu til framdráttar þegar svona stórmál kemur til kasta þess — hæstv. ráðherra hefur beint því til þingsins að fá leiðsögn, það gerði hún í umræðum sem við áttum um ágæta skýrslu sem hér kom og bað beinlínis um að fá leiðbeiningu um hvað hún ætti að gera — að nefndin taki enga raunverulega afstöðu. Eins og framsögumaður gerði grein fyrir í lokum yfirferðar sinnar er það skýr afstaða nefndarinnar að hún hefur ekki afstöðu, mælir hvorki með né á móti.

Tæknilega vil ég nefna þrennt. Í fyrsta lagi finnst mér skorta á það þegar menn ræða þetta mál að sá möguleiki sé með, sem ég tel vera gild rök til jákvæðniáttar, að hingað verði um streng hægt að flytja rafmagn og geyma í lónum þegar það er á ódýru verði erlendis og það gerist mjög oft.

Í öðru lagi tel ég að það sem kannski mælir helst gegn málinu séu þau rök að hugsanlega leiði þetta til þess að rafmagn til heimila í landinu hækki. Þess vegna finnst mér að ráðherrann eigi að fá algerlega skýra leiðsögn um það að eitt af áhersluatriðunum eigi að vera að finna mótvægisaðgerðir. Það hjálpar henni til að velja og hafna leiðum.

Í þriðja lagi er það sem mér finnst verst, sem fyrrverandi iðnaðarráðherra og sat í almannavarnaráði sem fjallaði meðal annars um orkuöryggi, að ekki er bent á að þetta stóreykur öryggi í afhendingu orku á Íslandi, ekki síst ef upp koma alvarlegir atburðir eins og náttúruhamfarir. Þetta vildi ég segja alveg skýrt í upphafi umræðunnar.