143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að vera ósammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að nefndin hafi ekki afstöðu, hún hefur það einmitt og skýrir hana ágætlega. Afstaðan er að okkur vantar meiri upplýsingar. Afstaðan hefði alveg getað orðið sú hjá einhverjum að hætta bara algerlega en það er öll atvinnuveganefnd sem skrifar undir þetta álit og vill að hæstv. ráðherra vinni áfram með málið. Það er góð afstaða finnst mér og það er vel af sér vikið.

Ég er mjög ánægð með vinnu nefndarinnar í þessu máli og við skrifum öll undir og færum ráðherra skýr skilaboð til að vinna áfram með málið þannig að við getum stuðst við betri upplýsingar svo ríkja megi sátt um þá niðurstöðu sem verður í framhaldinu.