143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get sagt það hér að við hv. þm. Össur Skarphéðinsson eigum það sameiginlegt að vera forvitin um og áfjáð um að kanna þennan möguleika til hlítar. Þau rök sem ég hef heyrt t.d. um það verð sem við getum hugsanlega fengið fyrir þessa umframorku eða stýranlegu orku finnst mér mjög forvitnileg og ég vil að við skoðum þetta betur.

En það sem við erum ósammála um, ég og hv. þingmaður, er hvernig beri að vinna svona mál. Ég tel að því sé best farið með svona stórt mál að vinna það í sátt og samvinnu. Annars ströndum við því bara. Þess vegna er þessi leið farin og ég er ánægð með hana.