143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:15]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Hæstv. forseti. Þetta er löng og áhugaverð umræða um sæstreng til Evrópu sem hefur farið fram í atvinnuveganefnd. Það var virkilega gaman að taka þátt í henni með nefndarfólkinu og öllum þeim sem komu og deildu með okkur þekkingu sinni. Hún var upplýsandi og í verkefninu felast klárlega mörg tækifæri.

Ég var ánægður að heyra eldmóð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, eins og hans er von og vísa, en við förum kannski heldur rólegar í sakirnar en hann hefði kosið. Ég held að mjög góð sátt hafi verið í nefndinni einmitt um þessa niðurstöðu. Við viljum skoða málið áfram og fela það í hendur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að halda áfram með málið eins og hún mun gera best.

Mér finnst þó mikilvægast þegar við ræðum þessi mál að við tölum um þjóðarhag en ekki hag einnar stofnunar í sambandi við verkefnið. Það er gríðarlega stórt og við þurfum að fá miklu frekari upplýsingar, eins og komið hefur fram hjá hv. framsögumanni Björt Ólafsdóttur.

Ég hef lagt áherslu á það í þessari umræðu að við þurfum líka, eins og fram kemur í álitinu, að huga mjög að því hvað atvinnulíf okkar, hvað landið sjálft þarf af orku á næstu árum og ganga frá því áður en lengra verður haldið hvað við ætlum að nýta í okkar þágu. Við þurfum að skapa hér á næstu árum fjölbreytt atvinnulíf sem skapar góð störf, fjölbreytt störf og góð laun. Það er verkefni okkar. Við þurfum að nýta raforkuna hérna heima eins og við getum og nýta virðisaukinn af framleiðslu raforkunnar til verðmætasköpunar og útflutnings til að borga niður skuldir okkar.

Við höfum oft rætt í þessum sal, og ég ekki síst, um verkefnin sem bíða, eins og álver í Helguvík og þá gríðarlegu tekjumöguleika sem íslenska ríkið fær út úr því. Ég ræddi það síðast hér í fyrradag þegar ég var að tala um kjör öryrkja og ellilífeyrisþega að eins og staðan væri í dag ættum við ekki mikil tækifæri til þess að bæta kjörin nema við aukum framleiðslu í landinu. Það er verkefni okkar sem erum í þessum sal að standa saman um að auka verðmætasköpun í landinu og ekki síst með nýtingu raforkunnar. Ég held að það sé afar mikilvægt.

Ég skil hins vegar að þau tækifæri sem felast í þessu, sem kemur fram í álitinu á frumvarpinu, með til dæmis bændavirkjunum og smærri virkjunum séu tækifæri sem við þurfum vissulega að skoða. Það er auðvitað verðmætaaukandi fyrir bændur og landið okkar að geta nýtt fallorku í smærri ám og lækjum jafnvel. Ég hef heyrt það og þekki til þess að þeir sem standa að gagnaveri sem staðsett er í Ásbrú og hefur tekið til starfa vilja nýta græna orku til uppbyggingar á fyrirtæki sínu. Þeir hafa sagt að ef þeir hefðu haft kost á því að fá þessa grænu orku hinum megin við Atlantsála í Englandi væri þetta gagnaver þar, nær markaðnum.

Við þurfum því að huga að mjög mörgum málum í þessu. Mér finnst að við sem skipum atvinnuveganefnd höfum góða burði til þess að vinna málið saman og komast að bestu niðurstöðunni. Við náðum góða samkomulagi um greinargerðina og ég held að við munum halda áfram að vinna að málinu þegar það kemur aftur til okkar kasta.

Það kemur þarna fram að við eigum að auka og hámarka afköst og verðmæti auðlindarinnar, það er okkar verkefni, að fara vel með hana, fara gætilega að henni, gera þetta í góðri sátt við hana en umfram allt að skapa á Íslandi aukin verðmæti og búa til gott samfélag þar sem undirstaðan er orkan og fiskurinn í sjónum og þau góðu hráefni sem við getum unnið úr og erum þekkt fyrir. Ég er því sáttur við vinnuna svo langt sem hún er komin. Þetta er aðeins fyrsta skrefið á langri leið málsins og ég veit að næstu skref verða tekin af öryggi og ábyrgð. Þannig skulum við vinna málið, í sátt og samlyndi. Við getum auðvitað rifist eða deilt um hraðann á því. Ég er oft sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, við þurfum svolítið að gefa í í mörgum málum og ekki síst núna, það liggur á.

Ég held að í þessu máli sé hraðinn ágætur og ég vona að næstu skref verði tekin af hæstv. iðnaðarráðherra áður en langt um líður. Ég þekki hana ekki af öðru.