143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er prýðilegt að vita að hv. þm. Ásmundur Friðriksson þekkir hæstv. iðnaðarráðherra og treystir henni til að hraða sér í þessu verki. En þá finnst mér að nefndin hefði þurft að veita dálítið skýrari leiðsögn um það að þörf er á hraða og það á ekki að láta það silast áfram.

Ég er oft sammála hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni og hann kemur stundum gustmikill í ræðustól og jafnan drepur hann í máli sínu á þeim hlutum sem horfa til framfara í atvinnulífinu. Ég er alveg sammála honum um þá framtíðarsýn sem honum tókst í örfáum orðum undir lok ræðu sinnar að draga fram um íslenskt samfélag. Ég hef líka lesið bók eftir hv. þingmann og komist að því að hann er skeleggur rithöfundur og er ekkert að skafa utan af hlutunum, a.m.k. ekki þegar hann er að skrifa sögur af Vestmannaeyingum.

Mér fannst svolítið skorta á það í ræðu hv. þingmanns að hann segði skýrt hver afstaða hans væri í málinu. Ég tel að maður sem hefur talað eins og hv. þingmaður um orku og mikilvægi orkunnar og það að skapa verðmæti úr henni mætti alveg hafa dálítið afdráttarlausari viðhorf til þessa.

Nú ætla ég, frú forseti, bara til að greiða fyrir skoðanamyndun af hálfu hv. þingmanns og umræðunni hérna, að segja það sem mína skoðun að ég tel að hægt sé, ef menn vilja, að fara í stóriðju á Suðurnesjum og líka að hafa orku til þess að selja um streng ef við komumst að þeirri niðurstöðu. Þetta útilokar ekki hvort annað. Ég velti því nefnilega fyrir mér hvort hv. þingmaður, sem jafnan er skeleggur og harður í afstöðu sinni, láti það villa sér sýn og það dragi kannski úr þrótti hans í málinu að hann óttast að þetta hefði neikvæð áhrif á stóriðju í hans ágæta kjördæmi.