143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:30]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns byrja á að færa hv. atvinnuveganefnd mínar bestu þakkir fyrir góða vinnu og vönduð vinnubrögð í þessu máli, sem og einnig hv. umhverfis- og samgöngunefnd og efnahags- og viðskiptanefnd sem skila í fylgiskjölum umsögn um málið.

Ég verð að segja að ég er ánægð með þessa vinnu. Ég er ánægð með að þingið hafi gert einmitt það sem ég óskaði eftir og bað um og vonaðist til að yrði gert, þ.e. að skoða málið sjálfstætt, fá gesti og ræða það. Það er afar ánægjulegt að sjá að hér er samhljóða niðurstaða, en ég verð að segja að ég er ekki sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni þegar hann segir að leiðbeiningu skorti. Mér finnst hún ágætlega skýr. Hún kemur mér kannski ekki mikið á óvart en afstaðan er skýr eins og kom fram í máli hv. framsögumanns nefndarálitsins. Hv. atvinnuveganefnd, og þingið þar með, beinir þeim tilmælum til mín sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra að halda málinu áfram, að skoða málið áfram. Einnig er verið að segja mjög skýrt, að ég tel, að nefndin vilji, hún segir það beint, að málið verði skoðað og vandað verði til þeirrar vinnu og það skoðað frá öllum hliðum. Skýr leiðsögn er um það hvaða atriði nefndin leggur áherslu á að verði skoðuð.

Það er líka skýrt að nefndin telur, og þingið, að sú vinna eigi að fara fram á forræði stjórnvalda, að stjórnvöld eigi að hafa forgöngu um það hvernig málinu verði fram haldið. Þingið vill hefja þá vinnu sem fyrst en það er enginn að biðja um að málinu verði hraðað eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson var kannski að óska eftir í ræðu sinni áðan. Ég vil nú segja að það var heldur ekki það sem ég óskaði eftir að þingið gerði á sínum tíma. Ég óskaði einfaldlega eftir því að vandað yrði til verka og að þingið ræddi einmitt þau fjölmörgu atriði sem þarna eru undir, vegna þess að þetta er ekki einfalt mál. Ég held að gott sé að við ákveðum næstu skref í málinu með afstöðu þingsins á þessum tímapunkti. Ég held að það sé mjög mikilvægt í svona stóru máli að þingið hafi tækifæri til að skoða málið á þessum tímapunkti áður en ákvarðanir eru teknar. Ég held að það sé afar mikilvægt í svona risavöxnu máli. Eins og hér kom fram eru skiptar skoðanir og hv. þingmaður kallaði áðan í andsvari eftir afstöðu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar.

Ég held að erfitt sé að taka afstöðu af eða á akkúrat á þessu augnabliki vegna þess, eins og nefndin bendir á og nefndin sem skilaði þeirri skýrslu sem lögð var fyrir þingið benti líka á, að það eru ótal atriði sem þarf að taka afstöðu til. Nú höfum við það í nefndaráliti þingsins að þingið vill að þetta verði skoðað áfram. Mér finnst það vera afstaða. Þá gerum við það. Við fylgjum leiðsögn þingsins. Varðandi næstu skref þarf að kortleggja það hvernig þau verða tekin í framhaldinu. Það er líka margt í þessu sem við þurfum að skoða hvort sem af sæstreng verður eða ekki. Það er mikilvægt. Hv. atvinnuveganefnd er með til umfjöllunar aðra skýrslu sem ég vona að fái jafngóða umfjöllun, það er skýrsla um raflínur í jörð, um hvort löggjafinn vilji gefa flutningsaðilanum, Landsneti, því fyrirtæki, aðra leiðsögn en fyrirtækið hefur í dag samkvæmt lögum þegar kemur að línulögnum. Nú er leiðbeiningin sem löggjafinn hefur gefið fyrirtækinu sú að ávallt skuli leita hagkvæmasta kostsins. Ég vona að hv. atvinnuveganefnd taki þetta til skoðunar líka og að við þá í framhaldinu veltum fyrir okkur hvort við eigum að gefa aðrar leiðbeiningar út frá þinginu. Viljum við að önnur atriði verði tekin til skoðunar jafnhliða? Það geta verið umhverfissjónarmið, það geta verið margs konar sjónarmið sem þar koma til greina.

Ég verð að segja — og nú kemur hv. formaður nefndarinnar inn í salinn og heyrði ekki þakkir mínar til nefndarinnar áðan fyrir vel unnin störf — að umræða, þetta álit og sú umræða sem hér fer fram er vissulega leiðbeining og hún mun vissulega verða það og hefur orðið til bóta í þessari vinnu þannig að ég þakka hana og vil taka sérstaklega fram að mér finnst leiðbeiningin ljómandi ágæt. Takk fyrir það.