143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:44]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú veldur hv. þingmaður mér aftur vonbrigðum með útúrsnúningum vegna þess að ég hef aldrei sagt að þetta eigi að fara fram á hraða snigilsins, ég hef aldrei sagt það. Það sem ég legg áherslu á er að menn vandi til verka og skoði málin frá öllum hliðum, ég hef aldrei sagt að það eigi að gera á hraða snigilsins. Ég ætla þá að biðja hv. þingmann um að koma með okkur hinum í málefnalega umræðu vegna þess að þetta er ekki málinu til framdráttar.

Við erum einmitt með öll þau atriði sem hv. þingmaður rakti ágætlega, ljómandi vel. Evrópusambandið og lönd innan þess eru tilbúin til að greiða háar premíur akkúrat í augnablikinu. Ég benti á að það umhverfi, og sú umræða leiddi til þess að hér er að koma mögulega breyting á stefnu Evrópusambandsins. Þá vill hv. þingmaður vera búinn að gera samninga fyrir þann tíma. Allt í lagi. Hv. þingmaður getur — nú getum við farið að fabúlera um þetta — gert samninga til ákveðins tíma. Í millitíðinni breytist stefnan, og hvað þá? Hvað gerist þá þegar búið er að koma þessari stóru framkvæmd á laggirnar? Það er eitt af þeim atriðum sem við þurfum að skoða. Það er hlutur sem verður að skoða vel og ítarlega, einmitt í ljósi þeirrar þróunar sem er að verða þarna.

Ég vil því endilega biðja hv. þingmann um að senda mér bréf, sem hann boðaði, ég hlakka til að lesa það. Hv. þingmaður er afar góður penni og mun örugglega skrifa það með skemmtilegum stíl. Ég get alveg lofað honum að ég mun taka tillit til athugasemda hans og leiðsagnar nákvæmlega eins og ég hyggst gera með leiðsögn og þær athugasemdir sem hv. atvinnuveganefnd færir hér fram.

Ég ítreka þakkir mínar fyrir góða vinnu og góða leiðsögn í málinu.