143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

staða landvörslu.

[13:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða komst á dagskrá. Eins og væntanlega mörgum öðrum brá mér í brún þegar fréttir komu af því hvernig landvörslu yrði hagað í sumar í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum þegar þeir sem fyrir henni standa hafa núna stillt upp áætlunum sínum í kjölfar afgreiðslu fjárlaga. Þá kemur í ljós að veruleg afturför verður í þeim efnum hvað varðar umfang landvörslu og jafnvel svo að á ákveðnum svæðum verður alls ekki haldið uppi neinni landvörslu á svæðum þar sem það hefur verið gert undanfarin sumur, var að minnsta kosti gert í fyrra.

Miðað við þær upplýsingar sem ég hef dregið saman er staðan trúlega skást í Þingvallaþjóðgarði þar sem þjóðgarðurinn getur haldið uppi eða hyggst reyna að halda uppi nokkurn veginn óbreyttri landvörslu frá fyrra ári, samkvæmt upplýsingum stjórnenda þar. Að sjálfsögðu væri þörf á að auka hana verulega og jafnvel verður það eitthvað reynt, annaðhvort með lausráðnum eða fastráðnum starfsmönnum þjóðgarðsins. Þar er þó ekki hægt að segja að um afturför verði að ræða og er það vel.

Þegar kemur að Vatnajökulsþjóðgarði er horfið það viðbótarfjármagn sem sett var til garðsins á síðasta ári og gerði Vatnajökulsþjóðgarði kleift að bæta við 56 vikum í landvörslu á síðasta ári, sem kom sér auðvitað ákaflega vel þannig að samdráttur verður í landvörslu þar sem því nemur. Hann verður svipaður eða kannski ívið meiri en hann var á árinu 2012.

Langalvarlegast er staðan hjá Umhverfisstofnun og varðar þann þjóðgarð og þau friðlýstu svæði sem Umhverfisstofnun sér um. Þar er um að ræða mjög stóran hluta landvörslunnar í landinu.

Þar verður verulegur samdráttur og vikur í landvörslu verða færri en þær hafa verið um mjög langt árabil, dragast saman úr 234 á síðasta ári, 2013, þegar um 26 landverðir voru við störf í 125 vikur og er ekki víst að ráðnir verði nema 13 landverðir. Þar er því um helmingssamdrátt að ræða.

Það þarf reyndar að fara aftur til ársins 2007 til að finna færri vikur í landvörslu á vegum Umhverfisstofnunar í þjóðgörðum á hennar vegum og á friðlýstum svæðum. Þess ber þó að geta í þessu sambandi að vissulega hefur Umhverfisstofnun fastráðið starfsmenn á nokkrum stöðum sem sinna að sjálfsögðu landvörslu eftir því sem þeir geta áfram með öðrum verkum. Það ber að hafa í huga svo sanngirni sé gætt gagnvart þessum samanburði. Þannig má nefna að þeir starfsmenn sem ráðnir hafa verið á Ísafirði, í Vestmannaeyjum, á Patreksfirði og Hellu fyrir suðursvæðið leggja að sjálfsögðu sitt af mörkum í þessum efnum.

Engu að síður er hér um að ræða mjög tilfinnanlegan samdrátt og mikinn niðurskurð auk þess sem mun færri störf verða þá í þessari starfsemi á þessu ári og bætist það þá við þær fórnir sem Umhverfisstofnun hefur þegar fært til dæmis með beinni uppsögn sex starfsmanna á dögunum.

Það eru alvarlegar fréttir, ekki síst í ljósi þess að fjöldi ferðamanna hefur vaxið gríðarlega og mun að líkindum vaxa enn á næsta ári. Það er upplýst að 781 þús. erlendur ferðamaður hafi yfirgefið landið í Leifsstöð á síðasta ári og hafa menn síðan fundið út að ef teknir eru út þeir sem fóru um aðra flugvelli, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll, og farþegar sem koma af skemmtiferðaskipum og með Norrænu hafi um 914 þús. erlendir ferðamenn heimsótt landið í fyrra. Hin fræga milljón erlendra ferðamanna er því í sjónmáli og er það í hrópandi ósamræmi við þetta og ástandið á fjölmörgum stöðum sem við þekkjum að þessi mikli niðurskurður er. Ég nefni þar sérstaklega Friðlandið að Fjallabaki og ástandið í Landmannalaugum. Ég hygg að þau okkar sem hafa komið þangað um hásumarið og rætt þar við skálaverði og landverði viti hvers konar gríðarlegt ástand er til dæmis á því svæði um háannatímann.

Ég vil ósköp einfaldlega skora á hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að berjast fyrir því að hér verði gerð bragarbót á og reyna að sækja (Forseti hringir.) til þess aukna fjármuni að hægt verði að halda að lágmarki uppi sambærilegri landvörslu (Forseti hringir.)í sumar og var í fyrra.