143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

staða landvörslu.

[13:38]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp. Það er mjög tímabært í sjálfu sér á hverjum tíma og nauðsynlegt að taka umræðu um þessi mál.

Í upphafi vil ég segja að það er mjög mikilvægt að efla og styrkja landvörslu svo og alla innviði í þágu ferðaþjónustunnar til verndar íslenskri náttúru. Eins og við vitum höfum við þurft á síðustu árum að hagræða alls staðar og gerðum það á síðasta ári, meðal annars í þágu heilbrigðiskerfisins, velferðar- og menntamála.

Á sviði landvörslu eins og almennrar verndar og uppbyggingar innviða íslenskrar náttúru þarf að taka mjög myndarlega og verulega til hendinni, ég tek undir með hv. þingmanni í því. Í ljósi hinnar miklu fjölgunar ferðamanna er ljóst að þessi mál eru almennt ekki og hafa ekki verið í nægilega góðum farvegi. Á þessari stundu er ekki hægt að segja nákvæmlega hvaða viðbrögð séu möguleg, en það er ríkur vilji ráðherra — ég vil koma því fram hér — að leita leiða til að leysa bráðasta vanda sumarsins. Þannig er til að mynda nýlega búið að úthluta verkefnastyrk á vegum ráðuneytisins sem stuðlar að uppbyggingu á sviði umhverfismála til Teigarhorns, en það svæði var friðlýst í fyrra og mjög mikilvægt að þar sé landvarsla.

Eins og menn þekkja ber Umhverfisstofnun ábyrgð á hita og þunga í þessum málaflokki fyrir utan þá þjóðgarða sem hv. þingmaður nefndi hér líka og í forgangsröðun Umhverfisstofnunar var sem sagt ekki ætlað fé til Teigarhorns og niðurskurður allnokkur eins og fram hefur komið. Í sambærilegum upplýsingum, sem ég hef og væntanlega hv. þingmaður, þá er það rétt að fjöldi vikna er sambærilegur við það sem var 2007 og svona nálgast 2008.

Það er rétt að geta þess að það hefur líka átt sér stað ákveðin uppbygging eins og fram kom hjá hv. þingmanni. Ég hef töflu frá Umhverfisstofnun, en þar vantar þjóðgarðinn á Þingvöllum, og það er alveg rétt að þar standa menn býsna vel, og eins vantar þar Vatnajökulsþjóðgarð, þar standa menn líka býsna vel. Niðurskurðurinn sneri fyrst og fremst að framkvæmdafé en að einhverju leyti hefur þá líka orðið að draga þar eitthvað saman. Þá vantar auðvitað upplýsingar um þá aukningu sem hefur orðið á einstökum svæðum þar sem sveitarfélög eða einkaaðilar koma að. Hér vil ég nefna Geysi sem dæmi. Þó að ég hafi fullan skilning á þeim sjónarmiðum sem koma fram hjá því fólki, að nauðsynlegt sé að taka þar upp gjaldtöku og setja þar sex eða átta starfsmenn á daglega vakt, er ég ekki sammála aðferðafræðinni. Ég teldi mikilvægara að þeir biðu eftir heildarniðurstöðu, að útkljá nákvæmlega hver á landið og ganga þannig frá að það sé alveg tryggt. Mér finnst mikilvægt að það komi hér fram.

En Umhverfisstofnun leggur vel að merkja niður landvörð á Gullfossi, Geysi og Hveravöllum, einn starfsmann sem sinnti þessu öllu saman, einn starfsmann sem hafði enga aðstöðu á neinum stað og gat ekki verið með neina landvörslu á þessum þremur mikilvægu stöðum. Fólkið sem stendur að Geysi er að tala um að setja upp sex til átta starfsmenn og ef það verður niðurstaðan að þá í stað þeirra 230 vikna í landvörslu bætist við enginn smáfjöldi af vikum sem munu þá snúa að Geysi, til að mynda ef það verða átta starfsmenn erum við að tala um að bætt verði við 320 vikum og þá fer landvarsla í landinu yfir 400 í þeim samanburði sem hv. þingmaður var með hér áðan, ef þeir væru fimm erum við komin yfir þá tölu sem var í fyrra.

Ég nefni þetta sem dæmi af því að ég ætla að koma inn á það í framhaldinu að ég sé fyrir mér að nauðsynlegt sé að endurskipuleggja þessa starfsemi þannig að hún geti til framtíðar mætt þessum gríðarlega aukna ferðamannastraumi til landsins og þannig komið í veg fyrir spjöll á íslenskri náttúru. Þetta er eitt af stærstu náttúruverndarmálum dagsins og jafnframt undirstaða þess mikilvæga atvinnuvegar sem ferðaþjónustan sannarlega er.

Í umhverfisráðuneytinu, í samstarfi við atvinnuvegaráðuneytið, er í undirbúningi að leita leiða við að finna hentugasta fyrirkomulag fjármögnunar. Svo á að setja saman heildstæða framkvæmdaáætlun um vernd náttúru og uppbyggingu innviða á náttúruperlum landsins. Ég hef í huga að leggja fram tillögur í því hið allra fyrsta, vonandi hér á vorþinginu, drög að heildstæðri áætlun um skipulag og uppbyggingu í þágu ferðaþjónustu til verndar og uppbyggingar innviða í náttúrunni.

Það skiptir gríðarlega miklu máli að gera umbætur á þessu kerfi til framtíðar. Það þarf að skoða hver hin eiginlega fjárþörf er. Hvernig er best að koma landvörslunni fyrir? Er það skynsamlegast að hún sé hjá Umhverfisstofnun eða er skynsamlegra að hún verði hjá þjóðgörðunum, þeim þremur sem við erum komin með og hugsanlega fleirum í framtíðinni? Og þau friðlýstu svæði sem nauðsynlegt er að sinna — er skynsamlegt að fela það sveitarfélögunum eða öðrum slíkum aðilum? Þetta er allt nauðsynlegt að skoða og (Forseti hringir.) ég hef í hyggju að skoða í framtíðinni. En verulegrar aukningar er þörf.