143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

staða landvörslu.

[13:44]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Við hljótum að fagna því að hæstv. ráðherra ætli sér nú að skoða framtíðarskipulag í þessum efnum. Það sem hv. frummælandi, sem ég þakka fyrir að hafi stofnað til þessarar umræðu, benti á er að hér er um bráðavanda að ræða. Það eru engin smátíðindi sem orðið hafa; 232 vikur er mín tala, 234 hjá frummælanda, ég hef mína tölu frá landvörðum, eru skornar niður í 125 á þessu ári. Það er um 40% niðurskurður og það gerist á sama tíma og ferðamönnum fjölgar. Álagið eykst. Við höfum myndir í sjónvarpinu af drullusvaði í kringum dýrmætustu og okkur hjartfólgnustu ferðamannastaði á Íslandi.

Það er ekki glæsileg frammistaða ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra hingað til í umhverfis- og náttúruverndarmálum á þeim tíma sem liðinn er síðan hún tók við völdum. Það er ekki glæsileg frammistaða að ætla sér að rústa nýsettum náttúruverndarlögum sem mikil vinna var lögð í og margir komu að, ekki glæsileg frammistaða totustefnan í Þjórsárverum, ekki glæsileg frammistaða að skera niður Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, ekki glæsileg frammistaða að hætta friðlýsingum hjá Umhverfisstofnun. En hvað óglæsilegast er þó að þegar bráðavandi er á ferðinni, þegar náttúran er ofnýtt, er arðrænd, skuli hæstv. ráðherra hafa það eitt svar að hann ætli að veita fé til Teigarhorns og rannsaka málin í nefnd í sumar.