143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

staða landvörslu.

[13:53]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál hér upp og einnig vil ég lýsa því yfir að ég er honum hjartanlega sammála um að það er mjög alvarlegur hlutur sem við fengum að heyra, að verið væri að skera niður í landvörslu og brá í brún rétt eins og hv. þingmanni.

Jafnframt vil ég segja að það er ánægjulegt að við skulum eiga þessa stofnun sem er að sigla hér inn í annan áratug með starfsemi og hefur sannarlega vaxið fiskur um hrygg. Þessi stofnun, burt séð frá því hversu vel okkur er við hana og hversu mikilvægu hlutverki hún sinnir, þarf eins og aðrar stofnanir þessa lands, að taka á sig hagræðingarkröfu. Henni var þó hlíft meira en mörgum öðrum.

Mér finnst, og stend við það, að þær 30 milljónir sem stofnunin fær á sig í niðurskurð, ef ég hef talið rétt, af rúmum 1.100 millj. kr. séu ekkert rosalega mikið til að geta hagrætt. Ég trúi ekki öðru en að hægt hafi verið að forgangsraða innan stofnunarinnar með allt öðrum hætti en þarna var gert.

Málshefjandi, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fór yfir þessa flokka og landverðina og vikurnar. Það verður að segjast að á síðasta ári, árið 2013, var þeim fjölgað umtalsvert og þess vegna er það náttúrlega sárara núna þegar maður sér þessar samanburðartölur. En ég trúi ekki, fremur en málshefjandi og aðrir ræðumenn sem hér hafa talað, að það séu landverðir sem helst megi missa sín þegar verkefnum er forgangsraðað hjá Umhverfisstofnun. Ég trúi ekki öðru en að hægt sé að finna þar aðrar leiðir.