143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

staða landvörslu.

[13:59]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég held að við séum öll sammála um það, allir landsmenn, að öllum þykir okkur vænt um náttúruna. Markmiðið er að vernda hana og ganga vel um hana. Þess vegna segi ég, eins og komið hefur fram hérna, að við verðum að nýta fjármunina betur til að markmiðið náist. Þess vegna legg ég til að nýta það skipulag sem við höfum nú þegar, eins og löggæsluna og björgunarsveitirnar, ekki til að auka löggæsluna heldur nýta hana skipulega í landvörsluverkefni.

Lögreglan hefur til dæmis eftirlit með utanvegaakstri þegar hún er uppi á hálendinu og á ferð um landið og hún tekur þátt í björgun þannig að ef hún getur verið meira á ferðinni gæti hún tekið að sér verkefni sem eru hluti af verkum landvarða.

Björgunarsveitirnar fara um landið til þess að veita ferðamönnum aðstoð. Björgunarsveitir eru líka með umhverfisstefnu og gera oft göngustíga og annað slíkt. Ef þær fengju hluta af fjármagni landvarða til að gera göngustíga væri margfalt fjölmennara lið í að búa til göngustíga.

Við verðum að hugsa út fyrir rammann um hvernig við getum komið þessum málum í góðan farveg þannig að við getum aukið og nýtt það sem fyrir er. Ferðaklúbbarnir eru líka í stígagerð og þegar þeir eru á ferð um landið hafa þeir eftirlit með þeim og passa að vel sé gengið um náttúruna, eins og allir aðrir sem fara um landið.

Ferðaþjónustuaðilar upplýsa fólk, þeir selja þá þjónustu að segja fólki frá sögu og menningu landsins, þeir fara um landið og koma upp gönguleiðum, kynna þær og fræða fólk. Það eru allt hlutverk landvarða.

Sveitarfélögin hafa eftirlit með skipulagi sínu og skipulagssvæðum þannig að allt eru þetta verk sem landverðir sinna sem eru mikilvæg. Við þurfum einhvern veginn að ná að auka þetta því að ferðamannastraumurinn hefur aukist. Þess vegna spyr ég: Getum við nýtt fjármuni fyrir landvörslu betur með því að nýta það skipulag og þann mannafla sem við höfum nú þegar í landinu?