143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

staða landvörslu.

[14:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér sýnist þörf á, vegna umræðunnar, að rifja aðeins upp hvað landverðir gera. Þarna er um að ræða fólk með þjálfun og fræðslu sem hefur búið sig undir þessi störf. Margir hafa unnið þau mörg undangengin ár. Þetta er fagfólk sem tekur á móti gestum, veitir upplýsingar og fræðslu. Það gætir (Gripið fram í: … fagfólk?) þess sérstaklega að ákvæði friðlýsingarlaga og náttúruverndarlaga séu virt. Það hefur eftirlit með umgengni og umferð og það á auðvitað, ef einhver tími er afgangs, að sjá um svæðin, leggja göngustíga og sjá um tjaldstæði o.s.frv. Þetta er ákaflega ódýr starfskraftur sem skilar góðu starfi og ég held að lausnin sé ekki fólgin í því að reyna að leysa þetta einhvern veginn öðruvísi. Þetta er kerfi sem hefur reynst vel. Það þarf bara meira fjármagn til að hægt sé að halda uppi landvörslunni.

Ég vil segja fyrir mitt leyti til dæmis að ef á að draga úr landvörslu næsta sumar í Mývatnssveit um einn þriðja, fara úr 67 vikum niður í 43, þá er það katastrófa. Þar er mikið álag, gríðarlegur fjöldi og ég veit alveg hvers konar annríki hefur verið hjá landvörðunum eða að fjallabaki þar sem skálaverðir og landverðir urðu einhvern veginn að reyna að leysa málin saman í sumar og ganga hver í annars verk.

Svona er ástandið. Að fara aftur á bak í þessum efnum í ljósi þess að við megum búa okkur undir enn meiri fjölda ferðamanna sem ferðast í auknum mæli á eigin vegum, ekki í skipulögðum ferðum heldur taka bílaleigubíl og koma inn á svæðin þannig að ekki er hægt að sjá fyrir hvernig álagið verður, er að stefna í hreint óefni.

Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra verður að taka á sig rögg og fara inn í ríkisstjórn með beiðni um aukafjárveitingu upp á að minnsta kosti 30 millj. kr. þannig að hægt sé að halda sjó í þessum efnum.

Við gátum leyst þetta á undanförnum árum með ýmsum æfingum, fært þetta sem atvinnuátak eða tekið af óskiptum liðum úr atvinnuverkefnum eða umhverfisverkefnum. Ef ekkert slíkt er hægt hjá ríkisstjórninni núna verður ósköp einfaldlega að fá aukafjárveitingu í þetta verk.

Það er ágætt að eitthvað skýrist með tekjustofna (Forseti hringir.) á árinu 2015 eða 2016 en það leysir ekki málið í sumar. Og það eru þá einmitt sérstaklega rök fyrir því (Forseti hringir.) að taka á þessu með viðbótarfjárveitingu í ár (Forseti hringir.) ef svo horfir til betri tíma á grundvelli (Forseti hringir.) einhverrar tekjuöflunar (Forseti hringir.) árið 2015 eða síðar.