143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

staða landvörslu.

[14:03]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna sem er að mestu málefnaleg og mjög góð og þörf. Landvörsluvikur Umhverfisstofnunar segja ekki allt. Það er því fráleitt að tala um 40% niðurskurð í landvörslu á Íslandi. Það hefur víða verið bætt í, forgangsröðun Vatnajökulsþjóðgarðs er með öðrum hætti en Umhverfisstofnunar. Forgangsröðun Þingvallaþjóðgarðs er með öðrum hætti og svo eru ýmsir aðrir aðilar sem hafa aukið í bæði fræðslu og landvörslu á sínum svæðum.

Stofnun sem er með rúmar 1.100 milljónir og þarf að sæta niðurskurði upp á 30 milljónir metur hvaða forgangsröðun hún telur eðlilegasta. Hún mat að þessi forgangsröðun gengi. Að sjálfsögðu var það ekki ráðherra sem fyrirskipaði 40% niðurskurð. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu ekki, enda segja landvörsluvikur (Gripið fram í.) Umhverfisstofnunar ekki allt. (Gripið fram í.)

Í græna hagkerfinu eru fjármunir sem munu nýtast meðal annars Umhverfisstofnun í verkefni sem munu að einhverju leyti fara til innviðauppbyggingar sem er jafn nauðsynleg og landvarslan sjálf, ef ekki mikilvægari. Hvernig því fjármagni verður úthlutað af hálfu Umhverfisstofnunar er einfaldlega í vinnslu. Þess vegna sagði ég að ég gæti ekki sagt nákvæmlega á þessu stigi hver viðbrögðin yrðu. Ráðherra og ráðuneyti hefur komið til móts við Teigarhorn og það eru önnur mjög mikilvæg svæði sem þarf að skoða.

Það sem við horfum annars vegar á er bráðavandi sem við þurfum að taka á og hins vegar með hvaða hætti við gerum þetta til framtíðar. Þar horfi ég mjög björtum augum á náttúrupassafjármögnun, og tek undir með þeim þingmönnum sem um hana hafa fjallað, og þá framkvæmdaáætlun sem ég kynnti hér sem er ekkert ósvipuð samgönguáætlun, kæmi fyrir þingið til tólf ára með uppbyggingu, (Forseti hringir.) annars vegar til þriggja, fjögurra ára og hins vegar til lengri tíma og tryggði fjármagn með miklu betri (Forseti hringir.) og skilvirkari hætti en við höfum séð á liðnum árum. (Forseti hringir.)

Til framtíðar horfi ég björtum augum en við þurfum að bregðast við bráðavanda í sumar með öllum tiltækum ráðum. Ég tek undir með þingmanninum hvað það varðar.