143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

viðvera ráðherra í umræðu um raforkustreng til Evrópu.

[14:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Við ræddum hér í morgun um skýrslu sem gerð var um hugsanlegan raforkustreng til útlanda. Hæstv. iðnaðarráðherra gerði okkur þann greiða og sýndi okkur þann heiður að taka þátt í umræðunni. Af hennar hálfu snerist það um að kasta hér klasa af smásprengjum inn í umræðuna og það er auðvitað hennar réttur. En mig langar þess vegna, í ljósi þess að ég hafði ekki haldið hér ræður en var partur af þeim sem urðu fyrir sprengjukastinu, og á eftir að skýra minn málstað, til að inna hæstv. forseta eftir því hvort hann gæti gert uppskátt um það hvort hæstv. ráðherra er í húsinu eða hvort hún hyggst vera hér við umræðuna.