143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við höldum áfram umræðu um álit atvinnuveganefndar um skýrslu ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu. Það kom margt gott fram í umræðunni fyrir hádegi um það mál. Ég ætla að drepa niður á nokkur atriði í nefndarálitinu og líka í þeim umsögnum sem komu fyrir atvinnuveganefnd. Ráðgjafarhópur um raforkustreng til Evrópu var skipaður af þáverandi iðnaðarráðherra í júní 2012 og honum falið að kanna möguleikann á að leggja raforkustreng milli Íslands og Evrópu. Hópurinn var samdóma um að frekari upplýsingar þyrftu að liggja fyrir áður en unnt væri að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja streng sem þennan. Fram kemur í skýrslu hópsins að margir óvissuþættir fylgi framkvæmd af þessu tagi.

Allir sem skiluðu umsögn og komu fyrir nefndina voru sammála um að enn væri mörgum spurningum ósvarað og að mikil óvissa ríkti um til að mynda útreikninga á mögulegum ábata af verkefninu fyrir íslenskt samfélag. Því væri heilmikil stefnumörkun og áætlanagerð fyrir höndum ef ákveðið væri að halda áfram að kanna möguleikann á því að verkefnið yrði að veruleika.

Einnig var bent á að veikleikar séu í dreifikerfi landsins sem nauðsynlegt sé að bæta hvort sem hugmyndin um lagningu raforkustrengs verður að veruleika eða ekki. Úrbætur væru nauðsynlegar til að tryggja öryggi afhendingu og auka möguleika fyrirtækja til dæmis í sjávarútvegi til að rafvæða verksmiðjur sínar. Þá var einnig nefnt mikilvægi þess að hraða uppbyggingu þriggja fasa rafmagns í sveitum landsins. Auk þess var talsvert rætt um áhrif verkefnisins á raforkuverðs innan lands en flestir voru sammála um að raforkuverð kunni að hækka verði verkefnið að veruleika.

Með vísan til þeirrar miklu óvissu sem er til staðar er ljóst að taka þarf góðan tíma í að kortleggja þetta verkefni og möguleg hagræn og félagsleg áhrif þess. Við teljum að þarna sé á ferðinni langtímamál sem þurfi að skoða ítarlega.

Þær umsagnir sem komu fyrir nefndina voru margar mjög góðar og ítarlegar. Ég ætla að stikla á stóru í umsögn Landverndar því að mínar skoðanir falla mjög að því áliti. Ég tel rétt að undirstrika nokkur álitamál sem komu fram þar eins og þjóðhagslega hagkvæmni sæstrengs til Evrópu, áhrif á raforkuverð innan lands, umhverfis- og félagsleg áhrif og að útreikningar Hagfræðistofnunar miðist ekki við uppbyggingu á raforkuflutningskerfinu innan lands. Með leyfi forseta ætla ég að nefna nokkur atriði í umsögn Landverndar. Þar segir um þjóðhagslega hagkvæmni sæstrengs og skort á forsendum útreikninga:

„Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagslega hagkvæmni á lagningu sæstrengs til Evrópu er skýrt tekið fram að mikil óvissa ríki um þær forsendur sem notast er við og því beri að líta á niðurstöðurnar eingöngu sem vísbendingar um áhrif verkefnisins og að taka verði niðurstöðum útreikninga með varúð.“

Talað er um að raforkuverð erlendis í framtíðinni sé ein meginforsenda í útreikningum þeim sem Hagfræðistofnun lagði fram. Einnig kemur fram að mikil óvissa ríki um raforkuverð á árinu 2030 í Evrópu. Umhverfiskostnaður er ekki tekinn inn í útreikninga Hagfræðistofnunar, sem er umhugsunarvert. Stjórn Landverndar bendir á að til að meta þjóðhagslega hagkvæmni þurfi að meta umhverfiskostnað, þann kostnað sem lagning sæstrengs mundi hafa á umhverfið út frá fjárhagslegum mælikvarða. Í tilfelli sæstrengs á það meðal annars við um áhrif af nýjum virkjunum og lagningu nýrra háspennulína á umhverfið, þar með talin sjónræn áhrif. Erfitt er að meta slíkan kostnað, m.a. vegna þess að útsýni, útivist og tilvist náttúrunnar er ekki markaðsvara og því erfitt að setja verðmiða á slíkt. Það eru þó til aðferðir til að meta umhverfiskostnað en hérlendis hafa afar fáar og takmarkaðar rannsóknir farið fram á fjárhagslegu verðmæti náttúrunnar sem útreikningar á umhverfiskostnaði þyrftu að byggja á, enda er það sennilega stærsta ástæða þess að umhverfiskostnaður er ekki tekinn inn í útreikninga um mat á þjóðhagslegri hagkvæmni.

Bent er á að ráðgjafarhópurinn telur að ekki sé hægt að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands að svo komnu máli. Fram kemur í umsögninni að mikilvægt sé að hafa í huga hvaða áhrif sæstrengurinn hefur á framkvæmdir í raforkuflutningskerfinu innan lands. Landsnet hefur greint frá því hvernig þyrfti að styrkja flutningsnetið á Íslandi til að anna orkuþörfinni um 800 megavatta stöðugan útflutning á sæstreng, ef af honum yrði, en virkjunarkostir og landtökustaðir ráða miklu um styrkingarþörf sem þá mundi einnig nýtast til að anna auknu álagi innan lands að mati Landsnets. Þá kemur fram að talsverð styrkingarþörf sé í öllum áætlunum Landsnets vegna sæstrengs. Hagfræðistofnun gerir hins vegar ekki ráð fyrir neinum kostnaði vegna undirbúnings framkvæmda við flutningskerfi raforku í skýrslu sinni. Þetta krefst því nánari skýringa.

Við vitum að orkuauðlindir landsins eru takmarkaðar og miða verður við það mat á sæstrengnum að þær séu takmörkunum háðar. Það ber að hafa í huga þegar verið er að tala um að flýtt verði uppbyggingu á lagningu innanlandsflutningskerfis — þurfum við ekki líka að leggja háspennulínu yfir hálendið svo sæstrengur sé talinn hagkvæmur? Það má spyrja þess.

Varðandi umhverfis- og félagslegu áhrifin af sæstreng leggur Landvernd mikla áherslu á að kanna það vel og vandlega og bendir á að helstu umhverfisáhrif felist í auknum þrýstingi á byggingu virkjana og stórra háspennulína á Íslandi. Ég held að það sé eitthvað sem menn þurfi að taka vel inn í þessar forsendur allar, hversu mikill þrýstingur skapast á auknar virkjunarframkvæmdir í landinu og stóra háspennulínu á Íslandi sem þyrfti ekki á að halda annars, þótt innanlandsflutningskerfið yrði styrkt. Þá er einnig bent á að óvissa ríki um hugsanlegt orkutap á jafn langri leið og sæstrengurinn mundi fara um og að ef orkutap yrði meira en búist var við mundi það auka enn þrýstinginn á nýjar virkjanir umfram það sem annars væri.

Mér finnst að gaumgæfa þurfi öll þessi atriði vel og vandlega. Umsagnir frá fyrirtækjum eins og Samorku hljóða á þann veg að þetta verkefni væri vissulega mjög spennandi og stórt orkutækifæri. Samtök iðnaðarins telja að virkja þurfi meira og byggja upp flutningskerfi ef af lagningu sæstrengs verður og athuga og rannsaka áhrif á atvinnustarfsemi í landinu. Umhverfisstofnun benti á að rannsaka þyrfti þann mikla umhverfis- og fórnarkostnað sem hugsanlega fylgir lagningu sæstrengs. Það er margt sem þarf að gaumgæfa vel. Þetta mál er ekki einfalt.

Nefndin leggur fram sex ítarlega punkta. Ég ítreka mikilvægi þess að við áframhaldandi vinnu verði tryggð aðkoma annarra hagsmunaaðila eins og umhverfissamtaka og annarra sem málið varða, eins og málið var unnið þegar áfangaskýrslan um hugsanlegan sæstreng til Evrópu var unnin.