143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Síst vil ég skaka skellum að þeim sem nú stýrir þinginu, en það er hins vegar rangt hjá hæstv. forseta að ég hafi óskað eftir nærveru hæstv. ráðherra. Það hef ég aldrei gert á mínum ferli. Ég hef aldrei krafist þess að ráðherra komi í salinn. Ég hef hins vegar spurt mörgum sinnum, eins og ég gerði hér áðan, hvort hæstv. forseti vissi til þess að hæstv. ráðherra hygðist vera hér. Ég tel að það sé nægilegt til þess að gefa viðkomandi ráðherra tækifæri til þess að taka afstöðu til þess hvort hún eða hann eigi að heiðra þingið með viðveru sinni. Hitt er svo annað mál að ég fór fleiðraður upp á herðablöð úr ræðustóli í morgun eftir klasasprengjur hennar gagnvart mér, svo mér finnst það bara sæmandi að hún sé hérna.

Eins og hæstv. forseti veit er ég nú þeirrar eðlisgerðar að ég rétti bara hinn vangann jafnan og þakka samt hæstv. ráðherra fyrir að vera hér.

Ég er ánægður með þessa umræðu. Mér finnst hún hafa verið málefnaleg og góð. Ég get í öllum efnum tekið undir það sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði hérna áðan, ég tek mark á þeim varnaðarorðum sem hún mælti til okkar sem viljum fara hratt. Það er auðvitað margt sem þarf að skoða í þessum efnum. Ég er algjörlega sammála því. Það var hins vegar ein staðhæfing í máli hennar sem ég var ekki alls kostar sáttur við. Hún sagði að það væri gott í lok þessarar umræðu, a.m.k. á þessum tímapunkti, að allir hér væru sammála um að halda málinu áfram. Ég er ekki alveg viss um að svo sé í þessum sal. Ég er ekki viss um að allir vilji það. Ég á t.d. enn þá eftir að heyra fulltrúa Framsóknarflokksins lýsa því yfir fyrir Alþingi að hann vilji halda þessu máli áfram.

Ég hef sagt að mikilvægt sé að nota þann tíma sem við höfum vegna þess að ég held að hann sé ekki endalaus. Ég held að það séu að verða ákveðnar breytingar á orkuumhverfinu í Evrópu þangað sem við mundum hugsanlega selja raforkuna, sem gera það að verkum að ekki sé víst að þetta tækifæri standi svo lengi.

Mér fannst hæstv. iðnaðarráðherra misskilja í morgun og hugsanlega ekki vera nægilega vel upplýst um það að orðið hafa miklar breytingar á orkuframleiðslu bæði í Evrópu og vestan hafs. Menn hafa náð tökum á tækni, mjög umdeildri, sem felst í því að ryðja úr jarðlögum þunnum lögum af gasi sem þar er að finna á mismunandi dýpi. Það hefur leitt til þess að t.d. í Bandaríkjunum er allt annað umhverfi varðandi orkuframleiðslu. Það hefur aftur leitt til þess að sá efnahagsbati sem minn ágæti flokksbróðir, Barack Obama Bandaríkjaforseti, hefur hrósað sér af og stefnu sinni, liggur að öllu leyti í þessu. Það er undirrót þess að Bandaríkin hafa rétt svo úr kútnum. Eðlilega hefur það skekkt samkeppnisstöðu millum Bandaríkjanna og Evrópu. Það hefur aftur leitt til þess að Evrópuþjóðirnar hver um aðra þvera eru nú að búa sig undir að framleiða svona orku. Þessi orka flokkast sem endurnýjanleg orka, þetta er náttúrulegt gas sem framleitt er með óhefðbundnum efnum. Þær þjóðir sem liggja næst Rússlandi og eru háðar Rússlandi um orkuöflun eru þar í fararbroddi. Og þrátt fyrir mikil mótmæli í Evrópu er alveg ljóst að mjög víðs vegar um Evrópu munu menn núna á næsta áratug, hugsanlega á næstu fjórum, fimm árum, fjárfesta alveg gríðarlega í þessari nýju tækni. Það mun aftur hugsanlega a.m.k. þoka til hálfrar gáttar þeim glugga sem nú er opinn.

Þegar ég segi að þess vegna sé mikilvægt að vanda sig en hraða eigi að síður könnuninni er það til þess að við missum ekki af því tækifæri sem býðst. Það býðst núna eins og hæstv. ríkisstjórn veit jafn vel og fyrri ríkisstjórn og það felst í því að það eru aðilar sem eru reiðubúnir til þess að koma að gerð þessa strengs og fjármagna hann. Það kom fram tilboð um það opinberlega síðast í síðustu viku. Sömuleiðis er á næstu árum tækifæri til þess að gera samning til langs tíma um kaup á orku á því verði sem gerir meira en í blóð slíks strengs. Það er það sem við þurfum. Ég er því miður ekki viss um að það tækifæri verði fyrir hendi eftir tíu ár.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst hæstv. iðnaðarráðherra ekki vera að flýta sér. Fram kom fram í máli hennar í morgun, hún gerði sérstaka athugasemd við það úr sæti sínu og áréttaði það síðan í ræðu sinni, að hún hefði ekki óskað eftir því að þessu máli væri hraðað í gegnum þingið. Ég verð að segja það alveg hreinskilnislega að ég hef nú þegar sett fram þær athugasemdir sem ég hef um nefndarálitið, að þeim frátöldum er þetta prýðilegt nefndarálit en það bætir nákvæmlega engu við það sem þegar var vitað úr hinni fyrri skýrslu sem álitið er um. Ég verð að segja að það hefur bara tafið tímann. Það er ekki við nefndina að sakast eða framsögumenn eða formann nefndarinnar, það er bara við ráðherra að sakast í þeim efnum. Það eina sem það hefur leitt til er að við höfum tapað hálfu ári, það er ekkert annað. Það er ekkert nýtt sem hér kemur fram. Það er ekkert sem ég hef séð hérna sem breytir með einhverjum hætti því sem var að finna í ábendingum skýrslunnar. Umhverfið sem þessi hugmynd leikur í er að breytast svo hratt. Það er eins og nefndin og þess vegna hæstv. ráðherra, miðað við ræðu hennar í morgun, hafi ekki gert sér grein fyrir því.

Ég tala hérna sem stuðningsmaður þessarar hugmyndar. Ákveðin atriði þarf að skoða ákaflega vel. Það sem ég tel að sé hugsanlega það neikvæðasta gagnvart möguleika á sæstreng er möguleikinn á því að það leiði til hækkunar á þeim 5% raforkunnar sem framleidd eru hér á landi og fer til heimilanna. Það má ekki verða. Ég vil ekki að þetta rafmagn verði selt til útlanda um streng ef það leiðir til þess að það hækki með stórfelldum hætti verð á raforku til heimilanna.

Það sem ég sakna, og það var eitt af þessum þremur atriðum sem ég gerði ágreining við um nefndina í fyrri ræðum mínum í dag, er að í þessu áliti, í þeim sex eða sjö punktum sem sérstaklega er beint til ráðherrans sé það gert að forgangsatriði að til þess að búa í haginn fyrir framtíðina verði henni í rannsókn málsins og framkvæmd sérstaklega falið að leita að mótvægisaðgerðum gegn því. Ég hef þær ekki á reiðum höndum en vísir menn í stjórnarliðinu hafa sagt mér að það sé auðveldur leikur. Það er gott. Þeir eru mér fróðari. Til þess að slá þetta í gadda í mínum huga þarf ég slíkt. Mér finnst að það eigi að vera forgangsmál hjá hæstv. ráðherra.

Sömuleiðis tek ég undir þau varúðarorð sem menn hafa nefnt varðandi ruðningsáhrifin á ýmiss konar aðra iðju, eins og t.d. landbúnað sem þarf á mikilli raforku að halda, eins og t.d. grænmetisframleiðslu. Ég er bara sammála því. Við þurfum að skoða það.

Ég er algjörlega sannfærður um að þeir sérfræðingar í atvinnumálum sem bæði er að finna hér í þinginu og í ráðuneytunum og við eigum kost á, geta fundið þessar leiðir. Ef þeir geta það ekki er ég í sjálfu sér alveg til í að fara í það verk sjálfur, hef ekki gert það hingað til, ég treysti mönnum eins og hv. formanni atvinnuveganefndar til þess að finna lausn á því máli. Ég held að það sé bara tæknilegt úrlausnaratriði.

Það eru sex atriði sem mér finnst mæla með því að þetta sé skoðað algjörlega í botn. Í fyrsta lagi, þar sem ég komst að raun um sem iðnaðarráðherra er að í þessu felst mikilvæg öryggistrygging fyrir atvinnulíf í landinu við þær aðstæður, sem yrðu auðvitað einstakar, að hér yrði mikil vá, náttúruhamfarir t.d. Það skiptir máli að hafa aðgang að rafmagni að utan.

Í öðru lagi gerir þetta okkur kleift að kaupa orku hingað á þeim tímum þegar hún er á lágu verði í Evrópu og geyma hana hér, í lónum til dæmis.

Í þriðja lagi leysir þetta upp, að ég hygg, fast að 300 megavött sem við höfum í kerfinu í dag og þurfum að hafa til þess að geta brugðist við einhvers konar hörmungum sem kynnu að dynja yfir þótt ekki væri nema það sem mætti skilgreina sem léttvægar hörmungar, eins og t.d. þegar stóriðjuver fær vegna truflana í raforkuframleiðslu ekki aðgang að því orkumagni sem það þarf. Það getur leitt til mikilla truflana.

Í fimmta lagi finnst mér að núna, að samþykktri rammaáætlun, liggi fyrir kostir sem sátt er um að eigi að vernda og sem sátt er um að eigi að nýta. Það þykir mér leiðarvísir inn í framtíðina um að hægt sé að gera áætlun um hveravirkjanir og vatnsaflsvirkjanir sem ekki stendur styr um. Það er mikilvægt að notfæra sér það.

Í sjötta lagi blasir það við að vegna hlýnunar mun afrennsli af jöklum aukast verulega og auka framleiðslugetu núverandi virkjana.

Til þess að ljúka máli mínu vil ég segja að ég er þeirrar skoðunar að ráðherrann eigi að vanda sig, en hún eigi að vinna hratt og hún eigi ekki að gera neitt sem gefur það til kynna að hún dragi lappirnar í þessu máli, en það er sú tilfinning sem ég hef eftir þátttökuna í umræðum í dag.