143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það liggja mikil auðæfi og tækifæri í orkuauðlindum landsins og það á eftir að skipta þessa þjóð og samfélag okkar gríðarlega miklu á komandi árum. Það hvílir því sú ábyrgð á bæði þinginu og ráðherra sem um þau mál fjalla að gera það af heilindum og skynsemi. Það hefur ekki alltaf verið þannig þegar við horfum til nýtingar orkuauðlindanna að við höfum getað nálgast málið á þeim forsendum.

Ég tel að starfið í nefndinni við vinnslu málsins og sú ákvörðun ráðherra að senda það til þingsins og umfjöllunar í nefndum þingsins hafi verið mjög skynsamleg og vinnan hafi verið góð. Það hversu mikil ábyrgð okkar er og hversu mikið við þurfum að leggja á okkur til þess að standa saman að svona mikilvægum ákvörðunum endurspeglast í raun í niðurstöðunni í nefndarstarfinu þar sem fulltrúar allra flokka skrifa undir nefndarálitið. Það sama á við um umsagnir frá efnahags- og viðskiptanefnd og umhverfisnefnd, þar eru fulltrúar allra flokka. Það er auðvitað mjög mikill áfangi í þessu mikilvæga máli.

Eins og kemur fram bæði hjá ráðgjafarhópnum sem skilaði skýrslu í júní á síðasta ári og við vinnu nefndarinnar núna er mörgum spurningum um málið ósvarað. Það á eftir að meta mjög marga þætti, svo sem félagsleg áhrif, umhverfisleg áhrif og efnahagsleg áhrif. Það var samdóma niðurstaða allra sem komu fyrir atvinnuveganefnd í málinu, allra umsagnaraðila, að mörgum spurningum væri ósvarað og að mikil óvissa ríkti um til að mynda útreikning á mögulegum ábata af verkefninu fyrir íslenskt samfélag. Því væri heilmikil stefnumörkun og áætlanagerð fyrir höndum ef ákveðið yrði að halda áfram með að kanna möguleikann á því að verkefnið yrði að veruleika. Tillögur okkar eru alveg skýrar í þeim efnum og skilaboð til hæstv. ráðherra: Það á að gera.

Eins og forstjóri Landsvirkjunar komst að orði í ræðu sinni á opnum fundi Landsvirkjunar í fyrra gæti þetta verið eitthvert mesta viðskiptatækifæri sem við höfum staðið frammi fyrir. Auðvitað ber okkur sem alþingismönnum að hlusta á slíkt, að hægt sé að hámarka afrakstur þessarar mikilvægu auðlindar með því að fara þá leið. Ég tek það fram og legg áherslu á að hann var fyrst og fremst að tala um þetta sem möguleika, vegna þess að ítrekað hefur komið fram hjá Landsvirkjun sem og öðrum sem hafa fjallað um málið og aflað sér þekkingar á því að allt of mörgum spurningum sé ósvarað til þess að hægt sé leggjast gegn því eða mæla með því. Ég fullyrði að þeir sem hafa mótað sér afstöðu í þessu máli í dag gera það ekki með nægjanlegar upplýsingar í farteskinu.

Það þarf að huga að atvinnusköpun í kringum verkefnið og bera saman við möguleikana á atvinnu- og verðmætasköpun í því að nota orkuna í eitthvað annað, í uppbyggingu á orkufrekum iðnaði. Það þarf að taka allt þar inn í myndina. Það þarf að taka inn í þá mynd öll margfeldisáhrifin af því að hafa starfsemi í landinu og verðmætasköpun í landinu miðað við að selja orkuna út. Það þarf auðvitað að skoða áhrif á orkuverð á bæði heimili og fyrirtæki sem fyrir eru. Það gleymist oft í umræðu um orkuöflun okkar Íslendinga að einhver mesti ábati samfélagsins, almennings í landinu í dag er einmitt af því hvað við erum með ódýra orku. Í öllum samanburði við önnur lönd njóta íslensk heimili þess gríðarlega að tekin var og mótuð hér sú stefna á sjöunda áratugnum að fara í stóriðju. Bjarni Benediktsson heitinn sagði í grein sem ég las eftir hann frá þessum árum að nú væri komið inn í tungumálið orðið stóriðja og sitt sýndist hverjum um það orð. En það var mikið gæfuspor og leiddi af sér lágt orkuverð vegna þess að það voru stóru orkukaupendurnir sem byggðu upp allt innviðakerfið í þessu stóra strjálbýla landi. Það gleymist oft í þessari umræðu, gríðarlegur ávinningur íslenskra fyrirtækja og heimila. Það þarf að skoða.

Er möguleiki á því, eins og komið hefur fram hér, að við yrðum að hækka orkuverð til heimila og fyrirtækja? Hvernig ætlum við að bregðast við því? Það er auðvitað grundvallaratriði í þessu vegna þess að við eigum áfram að stefna að því að vera með lægsta orkuverðið. Við eigum að leyfa okkur að vera með hátt í hundrað opnar sundlaugar í landinu allt árið eða hvað það er. Við eigum að leyfa okkur að bræða snjóinn af göngustígum og plönum hjá okkur og við við eigum að leyfa okkur að láta ljósin lifa, vegna þess að við höfum efni á því. Þetta er ein af þeim auðlindum sem við höfum til að bæta lífsgæðin í landinu.

Það er mjög mikilvægt í málinu að stíga varlega til jarðar, einmitt vegna þess hve miklir hagsmunirnir undir. Þótt við gætum verið að horfa á mikil tækifæri fyrir íslenska þjóð er auðvitað fullt af atriðum sem ber að varast og þarf að skoða mjög vel. Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af því að við séum hér fyrir framan einhvern glugga sem fer að lokast, að þetta tækifæri sé að fara fram hjá okkur. Ég hef haft miklu meiri áhyggjur af því þegar fólk talar hér fullum fetum um það í nýtingu orkuauðlindanna að við eigum að geyma þetta allt fyrir komandi kynslóðir. Ég hef haldið því fram að það sé miklu betra fyrir komandi kynslóðir að við komum orkuauðlindum okkar í vinnu jafnt og þétt, ekki of hratt vegna þess að áhrifin á íslenskt efnahagslíf mega ekki verða of brött, að við stígum þau skref jafnt og þétt og hikum ekki við að nýta auðlindirnar í þágu þjóðarinnar. Það er miklu betra fyrir komandi kynslóðir að koma að öflugu samfélagi sem er með traust heilbrigðiskerfi, félagskerfi og menntakerfi byggt á því að við nýtum afrakstur auðlinda okkar.

Ég held ekki að þessi gluggi sé að fara að lokast vegna þess að orka sem framleidd verður með eins grænum hætti og við gerum hér, með endurnýjanlegum orkugjöfum, mun alltaf verða samkeppnisfær við gas þótt aukin gasframleiðsla í heiminum geti vissulega haft áhrif á orkuverðið. Það mun vera þörf fyrir græna orku, hún mun vera áfram til staðar í Evrópu á næstu áratugum vegna þess að tækifæri þeirra til að fara í slíka orkuvinnslu eru fá og smá í samanburði við fjölmennið sem þar er.

Það er annað sem ber að hafa í huga í þessu máli og það eru öryggissjónarmið. Það er auðvitað mikil umframorka sem flæðir um kerfið okkar vegna þess að við erum með lokað kerfi. Það er einn stóri ábatinn við þetta verkefni, að við fáum mögulega verð fyrir þá orku, getum farið að selja hana út. Hitt er líka að í lokaða kerfinu felast ógnir og kannski sérstaklega með aukinni raforkuframleiðslu og aukinni starfsemi orkufreks iðnaðar. Þá er auðvitað öryggi í því að vera tengd við annað net ef eitthvað kemur upp á. Við búum í landi sem er þekkt fyrir náttúru sem getur sýnt á sér sínar verstu hliðar ef svo ber undir, og þá er auðvitað öryggi að vera tengdur einhvers staðar inn og geta dælt rafmagni til baka.

Virðulegi forseti. Nefndin leggur áherslu á hvað eigi að gera. Mín niðurstaða er að við eigum að vinna í þessu af mikilli festu. Við eigum að fá til liðs við okkur okkar besta fólk í þessa vinnu og mikilvægt er að vandað verði til verka. Við eigum ekki að flýta okkur um of, ég tel að okkur liggi ekki þannig á. Við megum ekki láta þetta tefja aðra uppbyggingu orkufrekrar framleiðslu í landinu. Við þurfum að horfa til þess líka að stíga ákveðin skref þar, en vinna samt hratt og vel í málinu. Látum það ekki tefjast vegna þess að það geta verið miklir hagsmunir undir sem okkur ber skylda til að gera grein fyrir og skoða í þaula.