143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Já, ég túlkaði kannski varúðarsjónarmið hv. þingmanns of neikvætt, það má vel vera. En það sem ég átti frekar við er það að mér finnst að þegar við erum að ræða þetta mál eigum við að ræða kostina og gallana. Það er á þeim forsendum sem við erum að skoða málið, ekki satt? Og kannski ekki síst á grundvelli kostanna, það er ástæðan fyrir því að við erum að halda áfram með þessa athugun. Við höfum ekki komist að þeirri niðurstöðu fyrir fram að gallarnir vegi svo þungt að ekki sé vert að skoða kostina.

Ég held að það sé langskynsamlegast, og það er stysta leiðin, að tengjast Evrópu með svona sæstreng. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því að við séum að flytja of mikið út til Evrópu — EFTA-löndin eru inni í þessum 80%, geri ég ráð fyrir, Noregur. Ef ég man rétt var einhvern tíma talað um að við værum með heil 12% þangað. Ég veit ekki hvernig það er í dag, það var á einhverju tímabili. Það er nú líka stór viðskiptaaðili okkar þannig að ég hef engar sérstakar áhyggjur af því. Evrópa er það fjölbreytt og kaupendahópurinn fjölbreyttur. Við erum að flytja út fisk — og er ekki álið inni í þessu líka að einhverjum hluta, sem fer til Hollands? — þannig að ég hef engar sérstakar áhyggjur af því að við séum að stofna okkur í einhverja hættu eða setja of mörg egg í eina körfu. Bæði er útflutningurinn fjölbreyttur og til fjölbreyttra markaðssvæða innan Evrópusambandsins.

Evrópusambandið er ekki eitt ríki, við höfum séð það í gegnum hrunið. Þó að syðri ríkin hafi komið illa út úr kreppu síðustu ára hafa Norðurlöndin ekki gert það. Þau eru enn með hátt lánshæfismat og eru í mjög sterkri stöðu. Við erum með viðskipti við alla þessa ólíku aðila þannig að ég hef engar áhyggjur af því eins og staðan er í dag.