143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:53]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa það að í hvert skipti sem talað er um rafmagn á Alþingi fer um mig straumur [Hlátur í þingsal.] og þegar talað er um …(Gripið fram í: Kemstu í stuð?) Jú, reyndar fer ég í stuð líka, en ég finn líka fyrir höfuðverk þegar fjallað er um verð á rafmagni, raforkuverð. Hér hugsa menn annars vegar mjög stórt í þessu máli og hins vegar mjög smátt. Ef ég kann að reikna þá virðist mér að aflið sem rennur í gegnum sæstreng þurfi að vera um það bil tvöföld sú orka sem þegar er virkjuð hér á landi. Það er stóra hugsunin. Hins vegar er annar valkostur og það er að leggja þriggja fasa rafmagn í Skaftárhrepp. Það er kannski þrep í þá átt að leggja þriggja fasa rafmagn í Skaftárhrepp að virkja Búlandsvirkjun þar í sveit.

En hvað um það, í því máli sem hér er fjallað um, raforkustreng til Evrópu, er líka fjallað um stærri tölur en við höfum áður fjallað um í fjárfestingum. Með fyrirvara um útreikninga reiknast mér til að fjárfesting í sæstreng og virkjunum gæti numið allt að landsframleiðslu eins árs. Það er margföld sú fjárfesting sem hér hefur átt sér stað á liðnum árum. Í því er náttúrlega fólgin mikil áhætta. Það er mikil áhætta sem fylgir strengnum, rekstraráhætta í strengnum, því þetta er með lengri sæstrengjum fyrir rafmagn. Sömuleiðis er rekstraráhætta í virkjunum. Við búum hér á landi við þá „dílemmu“, þá samloku ef svo má segja að hér má enginn virkja nema Landsvirkjun en Landsvirkjun má ekki taka áhættu. Þannig að ef því er fylgt eftir er ekkert hægt að gera.

Þetta er eitt af því sem skýrslan fjallar í raun um. Ég segi ósköp einfaldlega að ég tel að þetta sé einn af þeim kostum sem fyrir hendi eru í raforkumálum. Ég tel líka að Landsvirkjun sé í raun eini aðilinn sem er fær um að hafa þarna forustu vegna þeirrar reynslu og sambanda sem fyrirtækið hefur. Ég ætla ekki að taka undir með hv. 10. þm. Suðvesturkjördæmis að Landsvirkjun hafi farið með himinskautum.

Þetta er stórt mál. Skýrslan sem ég held á hér með þessu þunna nefndaráliti getur náttúrlega ekki svarað til um fjárfestingu upp á 2 þús. milljarða, með fyrirvara um reikninga.

Álitaefnin eru mörg fyrir utan áhættuna, m.a. raforkuverðið í Evrópu og hverjar eru skuldbindingar kaupenda í Evrópu og sömuleiðis ýmis reglugerðaráhætta sem ég átta mig kannski ekki á. Það er náttúrlega algjörlega óásættanlegt ef þetta hefur einungis þau áhrif að hækka verð til neytenda á Íslandi. Þá er nú kannski betra að hugsa smærra og virkja til heimabrúks. En hins vegar ef verð til notenda hækkar og þeirri verðhækkun fylgir ávísun vegna ábata af virkjuninni má halda áfram.

Hér hafa margir talað og ég ætla að ítreka að þegar hér á landi hefur verið virkjað hafa yfirleitt sprottið upp miklar deilur, ekki kannski út af virkjuninni heldur deilur út af því sem tengt er við, deilur út af notkuninni. Virkjanir voru hér lengi vel byggðar til að rafvæða byggðir landsins, fyrir þéttbýli og iðnaðaruppbyggingu. Síðan komu stórvirkjanir. Fyrsta var Búrfell, síðan nokkrar Þjórsárvirkjanir aðrar, síðan Blönduvirkjun. Menn verða að hugsa stórt og hugsa í heilum hlutum.

Ég samþykkti hér þingsályktunartillögu um atvinnuuppbyggingu í Austur-Húnavatnssýslu. Svo þegar hv. 1. flutningsmaður þeirrar þingsályktunartillögu fjallaði um hana skildist mér að hún gengi aðallega út á það að rafmagn frá Blönduvirkjun yrði einungis notað í Húnavatnssýslum. Ég taldi mig ekki hafa samþykkt það. Menn hugsa þetta dálítið á skjön og smátt ef einungis má virkja til heimabrúks hverju sinni. Þá virkjum við náttúrlega ekki neitt frekar. Það er ósköp einfaldlega fylgifiskur allra virkjana að það þarf að flytja raforkuna í háspennustrengjum.

Ég ætla að hafa það mín lokaorð að ég er allsáttur við þessa skýrslu. Hún er ekki neinn skemmtilestur. Ég er allsáttur við hana eins og ég hef reynt að skilja hana. Ég er allsáttur við álit atvinnuveganefndar og tel að iðnaðarráðherra og Landsvirkjun geti haldið áfram en þó með þeim fyrirvara að áhætta í fjárfestingum verði viðunandi. Evrópa verður okkar næsti nágranni og þangað munum við flytja út.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.