143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

virðisaukaskattur.

289. mál
[16:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir flutninginn á þessu máli. Eins og hv. þingmaður vísaði til afgreiddum við þetta mál í fjárlaganefnd á þessu kjörtímabili með þeim rökum sem hv. þingmaður nefndi og um það var góð samstaða í nefndinni, en það var ekki á fjárlögum og ef ég man rétt var það ekki á fjárlögum fyrir árið 2013. Hv. þm. Elín Hirst tók málið fyrst upp í haust og var dugleg að halda því á lofti.

Ég held að við séum öll sammála um markmið frumvarpsins, þ.e. að gefa þeim íþróttamönnum sem þurfa á þessum tækjum að halda tækifæri til að sinna íþróttagrein sinni því að þá munar virkilega um virðisaukaskattinn á þeim búnaði sem þeir þurfa á að halda.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé skynsamlegt að fara vel yfir þetta mál og á meðan við erum með virðisaukaskattskerfi er mikilvægt að sjá til þess að þetta snúist ekki um það hvort menn muni eftir að ganga frá þessu máli í fjárlaganefnd á hverju hausti heldur að málinu sé komið í einhvern farveg.

Síðan er annað mál. Ég held að það sé mjög skynsamlegt að fara yfir allt virðisaukaskattskerfið og endurskoða það frá grunni eins og við værum með autt blað. Það er annað mál sem við ræðum seinna.