143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

aðgerðir í þágu lækningar við mænuskaða.

294. mál
[16:20]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir framsöguna að þessari tillögu. Ég er ein af þeim fjölmörgu sem standa að þingsályktunartillögunni.

Af því hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór ekki nákvæmlega í gegnum sjálfa greinargerðina langar mig að benda á þá staðreynd að þingmenn á þessu þingi, sem sátu í Íslandsdeild Norðurlandaráðs, lögðu fram tillögu árið 2010 eins og fram kemur í greininni á bls. 2, með leyfi forseta:

„Árið 2010 lagði Íslandsdeild Norðurlandaráðs fram tillögu á þingi ráðsins þess efnis að Norðurlandaráð setti á fót sérfræðingahóp með það hlutverk að skoða norrænar og aðrar rannsóknir og tilraunameðferðir á mænuskaða og skila tillögum til úrbóta.“

Að þessu stóð öll þáverandi Íslandsdeild. Framsögumaður fyrir okkar hönd var þáverandi hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Síðan samþykkti Norðurlandaráðsþingið tillöguna og í dag hefur norrænum verkefnahópi verið komi á fót á St. Ólafssjúkrahúsinu í Þrándheimi. Frumkvöðlastarfi Auðar Guðjónsdóttur á Íslandi hefur því verið fylgt eftir af hálfu velferðarráðuneytis, því hefur verið fylgt eftir af hálfu þingmanna í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og nú liggur fyrir þingsályktunartillaga frá þingmönnum úr öllum flokkum er sitja á þingi. Okkur ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði, virðulegur forseti, að fylgja þessari tillögu úr hlaði sem fyrst svo að hægt sé að hefjast handa við það sem stendur í henni.

Ég tek undir það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði hér áðan að það yrði ekki bara okkur á þessu landi heldur öllum heiminum til framdráttar ef slíkt næði fram að ganga.