143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

306. mál
[16:49]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það hefur lengi tíðkast að ríkisstofnanir hafi til ráðstöfunar svonefndar markaðar tekjur, sem eru samkvæmt sérlögum ýmsum eyrnamerktar til að standa undir kostnaði við sérstök verkefni, málaflokka eða rekstur stofnana.

Eins og fram hefur komið, í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, er um að ræða sérstakar skatttekjur og rekstrartekjur úr ríkissjóði. Þó að markaðar tekjur yrðu lagðar af og ígildi þeirra rynni beint í ríkissjóð en ekki til stofnananna er gert ráð fyrir að viðkomandi fjárlagaliðir fái jafn hátt framlag og áætlaðar markaðar tekjur hefðu orðið. Því yrði ekki um skerðingu á framlögum til stofnana að ræða, breytingin yrði í framsetningu reikningsskila.

Fram er komið að ýmsar alþjóðastofnanir, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og OECD, hafa bent á að hér á landi sé umfang markaðra tekna verulega meira en tíðkast í öðrum löndum. Írland eitt er með meira umfang af mörkuðum tekjum en við Íslendingar.

Í íslenskum lögum er kveðið á um gjaldtöku ýmissa stofnana og ríkisfyrirtækja sem eru markaðar tekjur. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að þær tekjur renni beint í ríkissjóð og rekstrarframlög komi í staðinn til stofnana ríkisins. Það sem vinnst við þessa breytingu er meðal annars það að fjárhagsstjórnin verður skilvirkari og styrkari og fjárveitinga- og fjárstjórnunarvald Alþingis verður skýrara. Eftiráheimildir í lokafjárlögum leggjast af og fjárlagagerð verður einfaldari, reikningsskil einfaldari sem og lokafjárlögin. Færsla markaðra skatttekna án tillits til fjárheimilda stofnana hefur valdið vandkvæðum og flækjum í reikningsuppgjöri stofnana og jafnvel tafið lokauppgjör.

Það er markmið þessa frumvarps að einfalda og skýra reikningshald og fjárstjórn ríkisins, gera betur kleift að útgjaldamarkmið rammafjárlaga haldi, að auka gagnsæi reikningshalds ríkisins og stuðla að skilvirkari meðferð ríkisfjármuna. Fjárlaganefnd fór þess á leit við fjármála- og efnahagsráðuneytið að vinna þetta frumvarp. Öðrum ráðuneytum hefur verið kynnt það og þau hafa komið athugasemdum sínum á framfæri.

Helstu athugasemdir sem fram komu af þeirra hálfu voru að markaðar tekjur byggðust á áralangri hefð og að almenn sátt ríki um núverandi fyrirkomulag, að tengsl væru milli tekjuöflunar og kostnaðar stofnana og að samkomulag um mörkun tekna sé við aðila vinnumarkaðar. Fjárlaganefnd telur að þeim athugasemdum sé svarað með rökstuðningi í þessu frumvarpi.

Rétt er að benda á að skattar eða gjöld sem ríkið leggur á og innheimtir fyrir aðra, svo sem höfundarréttargjöld, falla ekki hér undir og eru ekki lagðar til breytingar þar á. Gera má ráð fyrir að markaðar tekjur lækki úr 106 milljörðum í tæpa 5 milljarða verði frumvarpið samþykkt óbreytt. Og ekki er gert ráð fyrir að skerðing verði á rekstrarumfangi stofnana með þessari breytingu. Hér er fyrst og fremst um breytingu á reikningsskilum að ræða, bókhaldsleg breyting til bóta en ekki breyting á ráðstöfunarfé samkvæmt fjárheimildum.