143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

306. mál
[16:53]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna framlagningu frumvarps til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur ríkissjóðs. Það eru óhugnanlegar staðreyndir sem fram komu í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson minntist á í ræðu sinni áðan um að algjört agaleysi væri í ríkisfjármálum á Íslandi, það er ekkert minna en það.

Að mínu mati er mjög brýnt að ríkisstjórnin fylgi fast eftir þeirri stefnu sinni að reka ríkissjóð án halla og það er einmitt meginboðskapur fjárlaga fyrir árið 2014. Þetta mun að sjálfsögðu reyna mjög á, því að það dugar ekki að kalla eingöngu eftir flötum niðurskurði í ríkisfjármálunum, sem er auðvitað þægilegast, það skilar oftast litlu nema til skamms tíma, ekki til lengri tíma. Mikilvægt er að ráðast í breytingar á rekstri þannig að þær séu til þess fallnar að skila hagræðingu og sparnaði til framtíðar.

Rekstur ríkissjóðs er miklu mikilvægari fyrir fólkið í landinu en svo að hægt sé að halda á málum eins og nú er gert. Við verðum að forgangsraða vandlega hvert útgjöldin fara til að ná nú um stundir hallalausum fjárlögum. Við verðum að einblína á hvert ríkisútgjöldin fara þar til efnahagur Íslendinga batnar og hér skapast aðstæður til raunverulegrar kaupmáttaraukningar, auk þess sem hægt verði að lækka skatta til að auka ráðstöfunarfé almennings á sama tíma og hægt væri að tryggja grunnstoðir samfélagsins, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, öryggismál, löggæslu o.s.frv. og styrkja stöðu þeirra sem minnst mega sín vegna örorku, sjúkdóma eða aldurs, svo eitthvað sé tiltekið. Allt hangir þetta saman í einni keðju, virðulegur forseti.

Ríkisbókhaldið er í raun og veru ekkert öðruvísi en venjulegt heimilisbókhald. Hugsum okkur til dæmis fjölskyldu sem eyðir um efni fram, alveg eins og ríkissjóður gerir. Hún þarf að taka bankalán á hverju ári til að endar nái saman og slíkur snjóbolti stækkar bara og stækkar og stöðugt fer meira af heimilistekjunum á hverju ári í vexti og afborganir. Undir forustu núverandi ríkisstjórnar og mjög öflugrar forustu innan fjárlaganefndar, vil ég kalla það, hefur verið ákveðið að stokka spilin upp og losna úr þeim vítahring, en það er ekki sársaukalaust.

Þá langar mig aðeins til að víkja að hinu góða starfi hagræðingarnefndarinnar. Skýrsla þeirrar nefndar var svo sannarlega merkilegt plagg. Ýmislegt af hugmyndum nefndarinnar er þegar komið fram en það liggur þó fyrir að margt er í skoðun og mun örugglega leiða til betri stjórnarhátta á meðferð á almannafé.

Frumvarp þetta, sem hér er lagt fram, bendir á einn af mörgum veikleikum í fjárlögum ríkisins og er af mörgu að taka. Þegar kemur að útdeilingu ríkisfjár sitja stofnanir og fyrirtæki á vegum ríkisins ekki við sama borð þegar kemur að útdeilingu á ríkisfé. Þetta sýnir málið í hnotskurn hvað varðar markaða tekjustofna. Þessu verður að breyta þannig að menn sitji við sama borð og það mun einnig stuðla að því að mun auðveldara verður að halda utan um rekstur stofnana hvað varðar gagnsæi o.s.frv.

Ríkisendurskoðun hefur margoft bent á að núverandi fyrirkomulag, þ.e. að stofnanirnar og fyrirtæki í eigu ríkisins séu með markaðar tekjur, sé mjög gallað. Hún hefur einmitt bent á að þetta hafi í för með sér mikið ógagnsæi og að gert sé upp á milli stofnana ríkisins sitji þær ekki við sama borð. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á mörgum þeim lögum sem að þessu snúa í því skyni að afleggja þetta kerfi og það er vel. Í staðinn renni markaðar tekjur inn í ríkissjóð en ekki færðar í bókhald stofnana eða þeim til sérstakra tekna.

Hér er nota bene ekki verið að tala um skerðingu á tekjum til þeirra stofnana sem við á heldur er verið að breyta fyrirkomulagi sem notað er við reikningsskil og gera það mun betra, gagnsærra og skilvirkara. Það styrkir mjög fjárveitingavald Alþingis og gerir alla fjármálastjórn ríkisins einfaldari og gagnsærri og þar með yrðu ákvarðanir um ráðstöfun á ríkistekjum einungis teknar í fjárlögum og fjáraukalögum, virðulegur forseti.

Útgjöld stofnana ríkisins eru ýmist fjármögnuð með framlagi úr ríkissjóði eða tekjum sem þær afla sjálfar. Þar erum við að tala um svokallaðar rekstrartekjur. Þær eru innheimtar samkvæmt lögum, svo sem ýmis leyfisgjöld, skrásetningargjöld og þess háttar. Sértekjur eru tekjur af þjónustu og þeim vörum sem seldar eru á markaðsforsendum. Þá eru innbyrðis viðskipti A-hluta stofnana hluti af sértekjum.

Ríkisendurskoðun gerði skýrslu um sértekjur A-hluta ríkissjóðs árið 2012 og mig langar að vitna í þá skýrslu stuttlega, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að áætlun fjárlaga gefi sem réttasta mynd af sértekjum. Öflun sértekna hefur alla jafna ekki neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu stofnunar. Hins vegar eru gjarnan bein tengsl milli sértekna og kostnaðar við að afla þeirra. Þetta þýðir að hækki sértekjur stofnunar gera gjöld hennar það einnig. Að sama skapi eru gjöld vanáætluð í fjárlögum ef sértekjur er vanáætlaðar.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur almennt eftirlit með framkvæmd fjárlaga og veitir leiðbeiningar þar um. Það fylgist með því hvernig eftirliti annarra ráðuneyta með fjárreiðum stofnana er háttað og að heildarútgjöld stofnana séu í samræmi við fjárheimildir.“

Virðulegur forseti. Hér þarf samstillt átak og í því sambandi langar mig að vitna stuttlega í greinargerð með frumvarpinu. Þar segir með leyfi forseta:

„Þótt tekna til að standa undir útgjöldum tiltekinna málaflokka eða verkefna sé aflað samkvæmt sérlögum hlýtur það jafnan að vera sjálfstæð ákvörðun Alþingis fyrir fram við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni hvort og þá hversu mikið fé er veitt til viðkomandi verkefna á fjárlagaárinu. Í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.““

Kjarni málsins er auðvitað sá að markaðar tekjur gera tvennt í senn. Þær takmarka sveigjanleika ríkisvaldsins til að ráðstafa til útgjalda og slíks og lenda í nauðsynlegu mati á hlutverki og umfangi. Það gengur náttúrlega ekki að sum útgjöld til stofnana og verkefna séu seld undir niðurskurð og endurmat en ekki önnur. Fylgifiskur þessa er sá að ekki er nægjanleg rýni á hvaða þjónusta er veitt fyrir hina mörkuðu tekjustofna. Af því leiðir að menn komast ekki að verkefninu til að meta hagkvæmni og á vissan hátt má segja að með svona fyrirkomulagi séu góðar líkur á að óhagkvæmnin sé hreinlega lokuð inni, það er enginn til þess að rýna.

Af þeim ástæðum og ýmsum öðrum styð ég þetta þarfa frumvarp. Ég tel afar mikilvægt að Alþingi samþykki breytingar á lögum um markaðar tekjur svo hægt sé að standa betur að rekstri ríkissjóðs sem síðan yrði sameiginlegur ávinningur okkar allra.