143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

306. mál
[17:24]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil koma hér upp til að styðja þá umræðu sem hefur farið fram um að draga úr mörkuðum ríkistekjum og hverfa frá því fyrirkomulagi. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór mjög vel yfir í framsögu sinni ástæður þess og tildrög og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem síðast talaði, kom inn á að aðdragandinn hefði verið þó nokkur.

Ég verð satt að segja að játa að ég hef lengst af staðið utan veggja Alþingis og verið mikill áhugamaður um það að í umræðu, bæði í fjölmiðlum og í pólitískri umræðu, sé gerður greinarmunur á peningamálastefnu og fjármálastefnu. Það er mjög mikilvægt þegar við tölum, og sér í lagi þegar við ræðum um skattfé almennings og hvernig við ráðstöfum því, að skýr greinarmunur sé gerður þar á. Þá vil ég tengja í umræðuna sem var fyrr í dag þar sem kallað var eftir plani ríkisstjórnar og farið í fundinn sem var í gær á viðskiptaþingi, sem var reyndar mjög vel sóttur fundur og í raun og veru alveg til fyrirmyndar. Þar var kallað úti í sal eftir plani og hverjir væru með plan.

Planið kom alveg skýrt fram í dag, þ.e. stefna ríkisstjórnarinnar — og nú erum við að tala um fjármálastefnu — þar sem megingrundvöllur fjármálastefnu birtist í fjárlögum. Þar er stefnan skýr og hún er sú að hætta að safna skuldum.

Ég ætla að hrósa hv. fjárlaganefnd fyrir að hafa náð því fram á fjárlögum sem samþykkt voru í desember að skila hallalausum fjárlögum í fyrsta skipti í sex ár. Það er afrek en fjárlögin eru í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og hún er skýr og þess vegna eru fjárlögin sett fram hallalaus.

Það er síðan hægt að setja þá stefnu í samhengi við þann áfellisdóm sem Ríkisendurskoðun gefur um að aga skorti í fjármál ríkisins. Gott og vel, við þurfum að horfast í augu við það. Ef við skilgreinum agann er agi ekkert annað en að hafa taumhald á hlutunum. Ef við tölum um sjálfsaga er það spurning um að hafa taumhald á sjálfum sér, hópaga, að hafa taumhald á hópnum. Það er okkar hlutverk, og býsna alvarlegt og mikilvægt og ábyrgðarmikið hlutverk, að hafa taumhald á sameiginlegum fjármunum okkar.

Hv. þingmaður og framsögumaður, Guðlaugur Þór Þórðarson, fór mjög vel inn á það áðan að í því efni, þegar kemur að aganum, er mikilvægt þegar við söfnum saman skattfé borgaranna að við ráðstöfum þeim frá toppi og niður. Þannig eflum við skilvirkni og getum unnið með útgjaldaþak og sett fram langtímahugsun í samræmi við stefnuna. Ég vil taka undir með öllum hv. þingmönnum sem hafa talað hér. Þeir hafa komið inn á að það muni auka skilvirkni, gagnsæi og einfalda bæði reikningsskil ríkisstofnana og fjármálaráðuneytis og samvinnu þar á milli. Þetta mun jafnframt auka jafnræði stofnana þar sem allir sitja við sama borð.

Ég átta mig hreinlega ekki á því, eins og kom fram í máli hv. þingmanns sem á undan talaði, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, að einhverjir hafi guggnað á þessu hingað til. Mér þætti gaman að fá að vita af hverju við höfum guggnað. Mér finnst það allt að því augljóst að við þurfum að breyta út af og leggja þetta fyrirkomulag af. Það kemur mjög skýrt fram hver ávinningurinn af breytingunum getur orðið og verður. Ég vil fyrst og fremst vitna til þess ávinnings sem lýtur að því að eftiráheimildir í lokafjárlögum leggist af og óvissu verði eytt um hverjar séu fjárheimildir stofnana á fjárlagaárinu.

Þá fáum við meira samræmi í lokaniðurstöðu ríkisreiknings og fjárlaga. Á endanum hlýtur það að vera það sem skiptir máli. Ég hlakka til að sjá umsagnir um málið. Það gengur væntanlega til hv. nefndar í kjölfarið. Ég trúi ekki öðru en að við stefnum að auknum aga og aukinni skilvirkni á þessu sviði.