143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

306. mál
[17:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég skildi hann svo að hann væri í sjálfu sér ekki á móti frumvarpinu efnislega heldur mundi hann vilja minnka umfang þess og takmarka það við ákveðna liði sem ekki færu þá á skjön við þá hugmyndafræði sem þingmaðurinn var að reyna að koma hérna á framfæri. Hvaða liðir eru það þá sem hv. þingmaður telur rétt að fari hérna í gegn? Hvar eru mörkin? Eins og ég upplifi það hefur verið talað um þetta í þinginu í áraraðir, það er bara aldrei rétti tíminn til að gera þetta, bara aldrei. Og eins og virðist koma fram í umsögnum ráðuneytanna þá sé það áralöng hefð að hafa þetta svona, og þá sé bara miklu betra að hafa þetta svona. Ég hafna þeirri hugsun. Ég vil að við leyfum okkur að skoða hlutina upp á nýtt.

Síðan er það með stjórnarskrána, sem er auðvitað eitthvað sem við þurfum að skoða þrátt fyrir að það sé eitthvað sem er ekki pólitískt þægilegt að gera og eitthvað þess háttar, þá stendur einfaldlega í stjórnarskránni að fjárveitingavaldið liggi hjá Alþingi og við eigum að hafa þá ábyrgð hjá okkur hvort sem okkur finnst það pólitískt þægilegt eða ekki.

Getur hv. þingmaður rétt súmmerað upp fyrir mig, svo maður átti sig á hvar ágreiningurinn verður þegar málið heldur áfram, hvaða liðir það eru sem þingmaðurinn telur rétt að verði samþykktir í frumvarpinu?