143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

skilgreining auðlinda.

309. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda. Flutningsmenn með mér eru hv. þingmenn Jóhanna María Sigmundsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir, Haraldur Einarsson, Karl Garðarsson, Þórunn Egilsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir og Ásmundur Friðriksson.

Þetta er í annað sinn sem þessi þingsályktunartillaga er lögð fram efnislega í þinginu. Á síðasta löggjafarþingi var ég einnig 1. flutningsmaður en meðflutningsmenn mínir þá voru þáverandi hv. þingmenn Sigurður Ingi Jóhannsson og Gunnar Bragi Sveinsson.

Tillögugreinin fjallar um að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að fá færustu sérfræðinga á sviði auðlindaréttar til að semja frumvarp sem skilgreinir með tæmandi hætti hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru. Það er mjög mikilvægt að þessi vinna fari af stað vegna þess að nefndasvið Alþingis og þingmenn hafa lítinn aðgang að sérfræðingum í samfélaginu, að færustu auðlindaréttarsérfræðingunum. Þess vegna er tillagan flutt undir þeim formerkjum að forsætisráðherra kalli saman þá aðila til að semja lagafrumvarp sem snýr að þessum málum.

Auðlindaréttur er ný fræðigrein í íslenskri lögfræði og hann er nátengdur umhverfisrétti. Eðli málsins samkvæmt fjallar auðlindaréttur um þær réttarreglur sem varða stjórnun, nýtingu og meðferð auðlinda. Heildstæð stefna um nýtingu auðlinda hefur ekki verið mótuð að neinu marki hérlendis.

Eitt af því sem stuðlar að ábyrgri umhverfishegðun er að líta svo á að náttúruauðlindir og réttur til þess að nýta þær hafi verðgildi þó að í sumum tilfellum kunni að vera erfitt að meta slíkt til fjár. Auðlindaréttur er nátengdur nýtingu náttúruauðlindanna. Réttur þjóða til að njóta auðlinda sinna nýtur verndar í þjóðarétti. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 14. desember árið 1962 var samþykkt yfirlýsing sem fjallar um sjálfstæði þjóða til að ráðstafa náttúruauðlindum sínum. Segir þar meðal annars að nýting náttúruauðlinda eigi að þjóna hagsmunum og auka velmegun fólks í viðkomandi ríki. Hefur þessi regla verið staðfest í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningnum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem voru fullgiltir af Alþingi 28. ágúst 1979. Megininntak beggja samninga er að allar þjóðir megi, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiða af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata og þjóðarétti.

Það var síðan árið 2000 sem svokölluð auðlindanefnd sem var kosin var af Alþingi skilaði af sér álitsgerð, mjög gott og þarft verk sem sú nefnd vann. Hlutverk nefndarinnar var að fjalla um auðlindir sem eru eða kynnu að verða þjóðareign. Það eru meðal annars öll verðmæti í sjó og á hafsbotni innan efnahagslögsögu, svo og í almenningum, afréttum og öðrum óbyggðum löndum utan heimalanda, námur í jörð, orka í rennandi vatni og jarðhiti. Taldi nefndin brýnt að mótuð yrði samræmd stefna og stjórn á nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi sem skapaði heilsteyptan lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins á ráðstöfun og nýtingu náttúruauðlinda.

Virðulegi forseti. Síðan þessari skýrslu var skilað eru liðin 14 ár og enn hefur ekkert gerst. Ég tel að málið sé enn brýnna nú en það var í kringum árið 2000 því að öllu fleygir fram hér á landi. Við verðum að standa sem sjálfstæð þjóð með náttúruauðlindum okkar og nýtingu þeirra.

Hér á landi hefur eignarhald náttúruauðlinda verið með ýmsum hætti og oft og tíðum hafa komið upp deilur í þjóðfélaginu um hvernig þeim málum skuli skipað. Í títtnefndri skýrslu auðlindanefndar frá árinu 2000 var lagt til að tekið yrði upp nýtt ákvæði í stjórnarskrá þar sem náttúruauðlindir sem ekki væru háðar eignarrétti yrðu lýstar þjóðareign. Ákvæðið sem nefndin lagði til var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.“

Á þeim 14 árum síðan þetta auðlindaákvæði var skrifað sem tillaga að auðlindaákvæði í stjórnarskrá hefur ekkert gerst í því máli að binda auðlindir þjóðarinnar í stjórnarskrá. Við munum þann tíma sem við upplifðum í þinginu sl. fjögur ár þegar reynt var að umbylta allri stjórnarskránni í stað þess að setja nokkur atriði í núgildandi stjórnarskrá, sem hefur staðið sig vel, en það varð ekki samkomulag um það. Við framsóknarmenn lögðum ofuráherslu á að náttúruauðlindaákvæðið færi inn í stjórnarskrána en þrákelkni þáverandi ríkisstjórnar var það mikil að því var ekki við komið að fara með nokkur ákvæði að breyttri stjórnarskrá, heldur átti að skrifa nýja. Staðan er því eins og hún var árið 2000 þegar þetta var lagt til.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að nú þegar hefur tekið til starfa nefnd sem hefur það hlutverk að gera tillögur að breytingarákvæðum í stjórnarskránni. Það verður vonandi í síðasta lagi í næstu alþingiskosningum eftir rúm þrjú ár sem þetta ákvæði fer þar inn og þá snýr þetta öðruvísi við.

Það er þannig með þetta mál að tilgangur þess er raunverulega að setja sérlög áður en auðlindaákvæðið kemur inn í stjórnarskrána til þess að standa vörð um auðlindir okkar. Málið var sett fram og ég hugsaði það fyrst á sínum tíma eftir sumarið 2009 þegar naumur meiri hluti Alþingis samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þá var ein auðlind íslensku þjóðarinnar tryggð með lögum og það var fiskveiðistjórnarkerfið, fiskurinn í sjónum, sú auðlind. Aðrar auðlindir voru opnar og ekki skilgreint hverjar þeir væru og hvernig ætti að nýta þær. Það er nauðsynlegt fyrir okkur sem sjálfstæð, fullvalda þjóð að þessi lagasetning fari fram til að verja hagsmuni okkar í alþjóðlegu samhengi.

Þáverandi hæstv. utanríkisráðherra hafði það í flimtingum að ekki þyrfti að binda auðlindir þjóðarinnar í lög vegna þess að Evrópusambandið mundi ekki ásælast eignarréttinn á auðlindunum. Ég get alveg fallist á það en það sem Evrópusambandið sækist eftir er nýtingarrétturinn, það að nota auðlindina. Þess vegna ber að setja þessi lög, til að skilgreina auðlindirnar og hvernig á að nýta þær.

Ég ætla að taka dæmi um eina auðlind vegna þess að hún er heitt mál í dag. Auðlind sem Evrópusambandið ásældist mjög hér þegar samningaviðræðurnar voru í gangi — það er nú sem betur fer búið að slíta þeim — var fallvatn og jarðhitaorka sem við notum til þess að búa til rafmagn. Það var komið svo langt í orkumálakaflanum að búið var að opna hann og loka honum og það var ákvæði í þeim kafla um að skorti ríki Evrópusambandsins orku bæri því ríki sem ætti nægilega mikla orku að flytja orku þangað. Þarna er komin hugmyndin um sæstrenginn sem sífellt er verið að tala um að við eigum að leggja til Bretlands. Undarlegar fréttir berast um að hann sé fullfjármagnaður í Bretlandi á meðan umræðan á Íslandi er nánast að fara af stað um það hvort við séum yfir höfuð tilbúin til að fórna þessu mikla landi og jarðhitaréttindum til þess eins að flytja orku til Evrópusambandsins.

Það var umræða um þetta í þinginu í dag. Það vita allir mína skoðun, ég leggst alfarið gegn sæstrengnum vegna þess að við eigum að nýta afurðirnar og nýta orkuna sjálf hér heima til uppbyggingar, til hagsbóta fyrir land og þjóð. Það liggur alveg fyrir.

Hv. fjárlaganefnd fór á Suðurnesin á vinnufund í gær þar sem við heimsóttum ný fyrirtæki sem verið er að byggja upp á fyrrum varnarsvæðinu og kölluð eru Kadeco. Þar komum við inn í þörungaframleiðslufyrirtæki sem hefur nýtekið til starfa hér á landi. Það var spurning hjá eigendum þess fyrirtækis hvort þeir ættu að setjast að í Noregi eða á Íslandi en svo varð Ísland fyrir valinu, sem betur fer því að okkur vantar atvinnuuppbyggingu. Ástæðan var sú að þótt Ísland og Noregur væru samkeppnishæf með svipað verð á rafmagni yfir sumartímann var það svo að þegar fór að hausta og vetur gekk í garð hækkaði rafmagnsverð svo mikið í Noregi að Noregur varð ekki samkeppnishæfur við Ísland í verði á raforku. Það er ástæðan fyrir því að við eigum ekki að fara í sæstrenginn. Norðmenn hafa lagt sæstreng og þegar kólnar í Evrópu á veturna og á haustin rýkur rafmagnsverð upp því að þar gilda að sjálfsögðu markaðslögmálin.

Þetta eitt á að hafa það mikinn fælingarmátt fyrir okkur Íslendinga að við ættum yfir höfð ekki að vera að hugsa um þessi mál. Það sýnir sig þarna hvernig þetta virkar á ríki sem hafa farið í slíkar aðgerðir.

Á það hefur verið bent að í sumum tilvikum sé mögulegt að verðleggja náttúruauðlindir og þá sérstaklega réttinn til að nota þær. Löggjafinn getur ákveðið að láta þá sem nýta auðlind greiða með einum eða öðrum hætti gjald til samfélagsins fyrir afnot auðlindarinnar, hvort sem um er að ræða gjaldtöku í formi skatta eða þjónustugjalda. Slík gjaldtaka þarf að vera almenn og við framkvæmd hennar skal gæta málefnalegra sjónarmiða og jafnræðis. Leiðsögn markaðshagkerfisins, eða „ósýnilega höndin“ svonefnda, nær aðeins til þeirra gæða sem unnt er að kaupa og selja á markaði og til þess að úrræði eins og gjaldtaka verði tekin upp í einhverri mynd verða pólitískar og efnahagslegar forsendur að vera til staðar.

Það var ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem tók upp auðlindagjald af sjávarútvegsauðlindinni. Þrátt fyrir að vinstri menn vilji lítið við það kannast var það nú samt svo. Á þeim tíma sýndu þessir flokkar skilning á því hvað auðlindagjald væri og hvernig ætti raunverulega að innheimta það í ríkissjóð til hagsbóta fyrir þjóðina. Það er leiðin sem við þurfum að fara með allar okkar auðlindir, nýti einhver auðlindina tökum við hóflegt auðlindagjald af viðkomandi nýtingu. Þannig verður farið fram í sátt, bæði við þjóðina og náttúruna sjálfa.

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga fer að umræðum loknum til hv. umhverfis- og samgöngunefndar til umfjöllunar og í venjulegt ferli. Kallaðir verða til færir lögmenn og álitsgjafar á sviði auðlindaréttar til þess að fara yfir málið. Ég hef væntingar um að í framhaldinu verði búið til frumvarp sem lýtur að því að skilgreina með tæmandi hætti hvað flokkast sem auðlind hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru til að við getum varið þann mikla fjársjóð sem landið og miðin bjóða upp á.