143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

skýrsla um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

[13:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég heyri að dreift hefur verið skýrslu um Evrópusambandið. Það er pínleg staða hér í þinginu því að við sammæltumst um það, þingflokkar á Alþingi, að dreifa í dag skýrslu utanríkisráðherra og taka hana strax á morgun til umfjöllunar í þinginu. Svo kemur á daginn að þingflokkar stjórnarflokkanna ákveða að leyfa sumum þingmönnum að fá að sjá hana á undan öðrum. Látum það nú kannski vera, en stjórnarliðið hefur svo litla sjálfsvirðingu að það lekur sinni eigin skýrslu í fjölmiðla áður en henni er dreift á Alþingi. Stjórnarliðið lak henni á forsíðu Morgunblaðsins í morgun og hún var birt í heild sinni á netmiðlum og send leiðtogum stjórnarandstöðunnar af fjölmiðlamönnum úti í bæ í stað þess að vera afhent af stjórnarliðinu.

Þingmenn Framsóknarflokksins eru á fésbók og í fjölmiðlum að gorta sig af þessari málsmeðferð. Það fer auðvitað kjánahrollur upp og niður eftir bakinu á manni við þennan umbúnað allan. Maður spyr sig auðvitað, ef stjórnarflokkarnir eru að gera einhliða skýrslu og vilja hafa einhliða málflutning af þessu tagi: Er þá ekki rétt að slíkar skýrslur séu bara teknar til umræðu (Forseti hringir.) í Valhöll og Kaupfélagi Skagfirðinga fremur en á hinu (Forseti hringir.) háa Alþingi? Hér hljótum við þó öll að (Forseti hringir.) eiga að sitja við sama borð.