143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

skýrsla um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

[13:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að í sjálfu sér er ekki óeðlilegt að stjórnarþingmenn hafi fengið stutta kynningu í gærkvöldi á þessari skýrslu. Ég tek hins vegar undir með þeim sem gagnrýna að skýrslan skuli ásamt viðaukum vera komin í netmiðla í morgun. Ég kann enga skýringu á því. Það er bagalegt.

Ég held að við verðum að læra af þessu. Ég mun alla vega læra af því hvernig gögnum er dreift og slíkt. Í það minnsta held ég að við ættum að horfa á þetta mikla verk og reyna að koma okkur í að ræða það, helst á morgun. Þetta er 150 blaðsíðna skýrsla, 800 blaðsíður af viðaukum. Það er mikið efni í þessari skýrslu og ég hef grun um að þingmenn klæi í fingurna að komast í efnið og ræða það.

Í sjálfu sér er engin breyting á tímafaktornum sem menn lögðu upp með, þ.e. hvenær skýrslan er lögð fram á þingi og hvenær umræða átti að fara af stað. Það er óheppilegt, og ég ítreka það aftur, mér finnst það leitt, mér finnst það grátbölvað að við skulum byrja þessa umræðu á því að ákveðnir netmiðlar virðast hafa (Forseti hringir.) fengið skýrsluna með einhverjum hætti.