143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

skýrsla aðila atvinnulífsins um ESB.

[13:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Utanríkisráðherra verður náttúrlega að svara þeim spurningum sem til hans er beint. Meinar hann það sem hann sagði í hádegisfréttum í dag að við stefnumörkun stjórnvalda eigi ekkert að horfa til þeirrar skýrslu sem aðilar vinnumarkaðarins eru að láta vinna um þetta stærsta hagsmunamál þjóðarinnar? Meinar hann það að ríkisstjórnin sé fyrir fram búin að loka eyrunum og ætli ekkert samráð að hafa við einhverja stærstu hagsmunaaðila í íslensku samfélagi um mikilvægustu stefnumörkunina í íslensku samfélagi?

Þegar hæstv. utanríkisráðherra segir að það sé ekki hægt að gera það vegna þess að sú skýrsla sé pöntuð af fylgjendum Evrópusambandsaðildar og afskrifar með þeim ósmekklega hætti þá skýrslugerð sem er í farveginum, eigum við þá með sama ósmekklega hætti að afskrifa hans eigin skýrslugerð vegna þess að hann pantaði hana og hann er andstæðingur Evrópusambandsins? Eða vill hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) ekki að við umgöngumst hann og hans sjónarmið eins og hann umgengst aðra og þeirra sjónarmið?