143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

skýrsla aðila atvinnulífsins um ESB.

[13:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hlýtur að hafa heyrt það sem ég sagði áðan. Við lögðum upp úr því að finna stofnun, sem meðal annars fyrri ríkisstjórn hafði notað töluvert mikið, til að gefa þeirri skýrslu sem við erum að láta vinna trúverðugleika. Ég vona að hv. þingmaður sé ekki að segja með þessum orðum sínum að hann vantreysti skýrslunni frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, ég vona að svo sé ekki. Ég held að það sé alveg augljóst og ég get sagt við hv. þingmann að það kemur mér ekkert á óvart að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins skuli hafa viljað hafa puttana í skýrslugerð þegar kemur að Evrópusambandinu. Það kemur ekkert á óvart.

En ég verð að viðurkenna fyrir hv. þingmanni, ef hv. þingmaður er að rukka mig um það hvort ég standi við orð mín um að ég sem utanríkisráðherra — ég get ekki talað fyrir hönd allra ráðherra eða allra þingmanna — ætli ekki að taka eitthvert mið af pantaðri skýrslu Samtaka atvinnulífsins og ASÍ, að það er mín skoðun að sú skýrsla sé pöntuð af þeim. Ég get ekkert að því gert þó að ég sé hreinskilinn við hv. þingmann, en þingmaðurinn skilur samt eftir þessa stóru spurningu: Treystir hann ekki háskólanum til að vinna sína skýrslu?