143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

mótmæli íslenskra stjórnvalda við mannréttindabrotum Rússa.

[13:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að bjóða mig velkominn heim. Það er gott að vera kominn heim.

Ég vil fyrst segja um stefnu íslenskra stjórnvalda, sem hv. þingmaður kallaði eftir, að henni hefur verið komið á framfæri við rússnesk stjórnvöld. Hún liggur alveg skýr fyrir. Við fordæmum þá framkomu og lagasetningu sem aðallega er vísað til í umræðunni um stöðu samkynhneigðra í Rússlandi.

Ég hef sjálfur ítrekað komið fram mínum persónulegu sjónarmiðum um það bæði hér úr þessum ræðustól áður en ég fór og reyndar í aðdraganda þess annars staðar, að ég telji þetta óásættanlegt. Það er ekki aðeins í Rússlandi sem ég tel stöðu samkynhneigðra óásættanlega, það er auðvitað fjöldi ríkja þar sem staða þeirra er óásættanleg. Við tókum til dæmis upp hér á þinginu fyrir ekki svo löngu síðan stjórnmálasamband við Palestínu. Það er hægt er að nefna sem dæmi um land þar sem staða samkynhneigðra er mjög slæm. Mjög víða er pottur brotinn hvað varðar stöðu þessa hóps, hjá mörgum þjóðum, því miður.

Ég er svo þeirrar skoðunar, eins og ég hef lýst áður, að Ólympíuleikarnir snúist um frið og samvinnu og séu eitt af því fáa sem við eigum öll sameiginlega á jörðinni, þeir eru einhvers konar sameign. Ég taldi því rétt að ég sem íþróttamálaráðherra mundi mæta á þá. Aftur á móti hvað varðar möguleika mína, eins og hef verið spurður að, hvort ég hafi haft tækifæri til að ræða við Pútín eða hitta hann er svarið við því nei, ég hitti hann ekki. Ég átti engan slíkan fund með honum.

Afstaða íslenskra stjórnvalda liggur alveg skýrt fyrir og henni hefur verið komið á framfæri við rússnesk stjórnvöld. Afstaða mín liggur líka skýrt fyrir.