143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

mótmæli íslenskra stjórnvalda við mannréttindabrotum Rússa.

[13:57]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég taldi rétt að fylgja eftir þeirri umræðu sem fram hefur farið hér á þessum vettvangi um þetta mál þannig að menn væru á sömu blaðsíðu með það. Það er mikilvægt þegar slíkir atburðir eru sóttir heim, ég tala nú ekki um þegar þeir eru jafn umdeildir og téðir leikar voru í þessu tilliti, að okkar sjónarmiðum sé komið rækilega á framfæri. Það má gera með margvíslegum hætti eins og ég sagði í ræðu minni og í fyrri umræðu um þetta mál.

Ef ríkisstjórn Íslands hefur sent frá sér sérstaka yfirlýsingu vegna þessa máls fagna ég því. Það er mikilvægt að sjónarmiðum okkar sé komið á framfæri og það er líka mikilvægt fyrir okkar fulltrúa að muna það að þeir eru fulltrúar okkar samfélags þegar þeir sækja slíka atburði heim. Ég er hlynntur því að íslenskir stjórnmálamenn geri það en það verður þá að vera með því fororði og með þeim formerkjum að menn komi sjónarmiðum okkar ávallt rækilega á framfæri. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin.