143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

mótmæli íslenskra stjórnvalda við mannréttindabrotum Rússa.

[13:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum ágætlega sammála um þetta mál, ég og hv. þm. Róbert Marshall, þ.e. að eðlilegt sé þegar um Ólympíuleika er að ræða að við mætum á þá, t.d. íþróttamálaráðherra eins og í því tilviki sem hér um ræðir, en um leið liggi fyrir með skýrum hætti afstaða okkar til þessara hluta.

Enn á ný, ég hef gert grein fyrir afstöðu minni bæði úr þessum ræðustól og annars staðar. Ég veit líka að athugasemdum íslenskra stjórnvalda hvað varðar þá lagasetningu sem einna umdeildust er hvað varðar stöðu samkynhneigðra í Rússlandi var komið á framfæri á sínum tíma. Ég tel rétt að stjórnvöld komi þannig fram að þetta liggi fyrir. Menn verða auðvitað að hafa það í huga hvað varðar Ólympíuleikana að menn þiggja t.d. ekki heimboð rússneskra stjórnvalda þegar þeir sækja þá, eins og í mínu tilviki. Það er Ólympíunefndin sem býður og það er þeirra boð sem ég þekktist í þessu tilfelli (Forseti hringir.) og er rétt að gera þar greinarmun á.