143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

skipulagsbreytingar í framhaldsskólakerfinu.

[14:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég er sammála honum um að við þurfum að gera betur. En meginstefið í allri skóla- og þróunarumræðu er að vel heppnaðar breytingar á skólastarfinu eigi sér stað þegar öflugir kennarar taka þátt í þeim og leiða breytingarnar alla leiðina inn í skólastofu. Það er einmitt andi laganna frá 2008 að virkja skólasamfélagið til breytinga sem styrkja mun stöðu nemenda bæði í starfsundirbúningi og til frekara náms, að þeir standi jafnfætis jafnöldrum sínum í nágrannalöndunum á sem flestum sviðum, m.a. með styttri námstíma til stúdentsprófs en nú tíðkast.

Telur hæstv. ráðherra ekki mikilvægt að þegar skipulagsbreytinga er krafist sé sveigjanleiki og aukið val nemenda skóla eins og best verður á kosið, eins og lögin gera ráð fyrir frá árinu 2008, að þá verði farsælli lendingu náð? Er ekki besta leiðin til að ná nauðsynlegum breytingum í sátt við skólasamfélagið sú að setja kraft í innleiðingu kafla framhaldsskólalaganna sem frestað var, setja aukið fé til þróunarstarfs í framhaldsskólunum þannig að nýja námskráin (Forseti hringir.) gildi og sú meginhugsun sem gerð var með lögunum 2008?