143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[14:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að segja að hæstv. ráðherra skaut sér hjá því að svara þeim tveim spurningum sem ég lagði fyrir hann og fór að rökstyðja almennt hvers vegna hann telji rétt að sameina Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri við Háskóla Íslands. Við höfum tekið þá umræðu á Alþingi áður og komið hefur fram að það er ekkert sem sýnir fram á fjárhagslegan eða faglegan ávinning.

Ég ítreka aftur þessar spurningar: Út af hverju er hæstv. ráðherra ekki búinn að skipa í háskólaráð sem er skylt að gera lögum samkvæmt? Maður spyr sig: Er þarna lögbrot á ferðinni? Og einnig varðandi það sem ég spurði um áðan, hvort ráðherra væri búinn að kynna stöðuskýrslu um skólann sem var samin af skrifstofu vísinda og háskóla hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og leita umsagnar hjá sitjandi háskólaráði. Er sitjandi háskólaráð það sem sat fyrir 1. október 2013 eða hyggst ráðherra skipa, eins og á að gera lögum samkvæmt, í háskólaráð og sinna (Forseti hringir.) hlutverki sínu þar með?