143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

afsökunarbeiðni og greiðsla skaðabóta til iðkenda Falun Gong.

292. mál
[14:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka 1. flutningsmanni, hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, fyrir frumkvæðið og fyrir að flytja málið hér í þinginu. Ég hef sjálfur fyrir einhverjum árum sem einstaklingur beðist afsökunar á þessari framgöngu. Í síðustu ríkisstjórn baðst þáverandi utanríkisráðherra afsökunar á málinu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Ég held að það sé ákaflega vel til fundið hjá flutningsmanni að flytja málið einmitt núna á þinginu vegna þess að það er örstutt síðan við á Alþingi samþykktum að auka frelsi í verslun og viðskiptum við Kína. Það er mín trú að við eigum almennt að nota menningarsamskipti, frjálsa verslun og viðskipti til að stuðla að framförum og bættum mannréttindum í heiminum og að við eigum ekki bara að þróa þau samskipti okkar við lýðræðisríki sem uppfylla öll mannréttindi heldur við sem flest ríki. Þá er auðvitað ákaflega mikilvægt um leið að undirstrika þau atriði sem okkur greinir á um við viðkomandi ríki, þær kröfur um breytingar sem við gerum til viðkomandi ríkja og þá sérstöðu sem við í samskiptum við þau ríki viljum halda til haga. Það er vissulega gert með óbeinum hætti í þessari tillögu og samþykkt hennar yrði klárlega býsna skýr skilaboð um það hvar Ísland stendur í mannréttindamálum, hver viðhorf okkar til Falun Gong-fólksins, sem við kynntumst hér að góðu einu í Reykjavík um árið, eru og um almenna fordæmingu okkar á framgöngu kínverskra stjórnvalda gagnvart stjórnarandstöðu og jafnvel hinni minnstu andstöðu við ríkjandi öfl þar.

Í sjálfu sér er ekki eftir neinu að bíða. Þetta er mál sem við þekkjum öll. Öll held ég að við fyrirverðum okkur fyrir framgöngu stjórnvalda á þessum tíma. Það er ævarandi blettur á ferli þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, með hvaða eindæmum hann gekk fram í þessu máli. Það er langhreinlegast og best að setja með skýrum hætti punktinn aftan við þá sögu með því að þjóðþingið sjálft, við öll, 63:0, segjum bara okkar skoðun á því og hörmum að til þessa hafi yfir höfuð nokkru sinni þurft að koma í okkar ágæta landi sem hefur á svo mörgum sviðum tekist að þróa mannréttindi farsællega og virðingu fyrir sjónarmiðum annars fólks.