143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

afsökunarbeiðni og greiðsla skaðabóta til iðkenda Falun Gong.

292. mál
[15:04]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna og ágætisábendingu varðandi samanburðinn við NATO-þingið sem fór fram 2002. Ég vil koma upp og árétta að í greinargerðinni var það ekki ætlunin og ég get ekki alveg skilið það þannig sjálfur heldur að felldur sé sá dómur um aðgerðir lögreglu af því tilefni að þær hafi verið yfirvegaðar og skynsamlegar. Þetta er í kaflanum um hvort það haldi vatni að segja að beita hefði mátt allsherjarreglu og sjónarmiðum um öryggi ríkisins til að banna iðkendum Falun Gong að koma til landsins.

Það er dr. Salton, sem ég minntist á í ræðu minni, sem hefur rakið þessi sjónarmið og kannað hvort rök séu fyrir þeim. Hann tiltekur meðal annars að ef íslenskum stjórnvöldum var umhugað um að nota allsherjarreglu og sjónarmið um öryggi þjóðarinnar, sem vissulega eru lagaleg sjónarmið, grundvallast á aðgerðum eins og gagnvart Falun Gong, var ekki samkvæmni í þeirri pólitík hjá íslenskum stjórnvöldum. Ef íslensk stjórnvöld höfðu áhyggjur af Falun Gong nefnir þessi mannréttindalögfræðingur önnur dæmi þar sem íslensk stjórnvöld hefðu þá líka átt að hafa áhyggjur í þágu samkvæmni í stjórnvaldsaðgerðum, ef þeim var svona umhugað um allsherjarreglu og öryggi þjóðarinnar. En þeim sjónarmiðum var ekki beitt varðandi mótmælin við Nato og ekki heldur við komu Hells Angels sem eru dæmi sem er hægt að taka frá árinu 2002.

Þetta er hugmyndin með samanburðinum en í honum felst hins vegar enginn dómur um það hvort aðgerðir lögreglu hafi verið yfirvegaðar eða skynsamlegar í tilviki NATO-þingsins (Forseti hringir.) Ég held að mjög mikilvægt sé að ræða yfirleitt hvernig tekið er á mótmælum á Íslandi. Það er mjög þörf umræða.