143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

afsökunarbeiðni og greiðsla skaðabóta til iðkenda Falun Gong.

292. mál
[15:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þm. Guðmundur Steingrímsson séum í öllum hinum veigamiklu málum algjörlega sammála hérna. Ég hef ekki lesið bók dr. Saltons þannig að ég hef hreinlega ekki þekkingu á samanburði hans eða því sem hann segir í þessari bók. Það eru auðvitað allir sammála um að allsherjarreglu var ekki beitt í sambandi við NATO-fundinn eða komu Hells Angels.

Það sem ég hnaut hins vegar um er þetta sem segir í greinargerðinni: „Þar átti íslensk lögregla ekki í vandræðum með að taka á móti tugum ráðherra og ráðamanna …“

Það er í rauninni þessi setning sem ég er ósammála. Ég tel að þeir hafi bara átt í talsverðum vandræðum með það eins og sést á því að við eigum ekki að venjast því að það séu vopnaðar leyniskyttur uppi á þökum húsanna okkar. Og auðvitað viljum við ekki, eða ég ætla rétt að vona það, þannig samfélag. Það er þetta atriði sem ég hnaut um.