143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

aðstoð við sýrlenska flóttamenn.

318. mál
[15:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari tillögu og taka heils hugar undir hana og þakka fyrir að hún er lögð fram. Í því sambandi vil ég minna á að Ísland er herlaust land, við erum herlaus þjóð, förum ekki í stríð, við erum ekki stríðsmenn. En við getum tekið þátt í þessari baráttu með því að bjóða frið og bjóða fólki grið sem vill ekkert annað en að búa einhvers staðar. Fólk sem kemur hingað sem flóttamenn er upp til hópa fólk sem vill ekki taka þátt í átökunum, vill vera þar sem er friður og við eigum að bjóða það velkomið. Mér finnst það skylda okkar gagnvart heimi sem við þyrftum annars að taka þátt í. En við þurfum ekki að taka þátt í honum. Við þurfum ekki að fara í stríð. Það er enginn að fara að ráðast á okkur og við erum ekki að fara að ráðast á neinn. Mér finnst að þau forréttindi eigum við að gjalda heiminum til baka með því að bjóða velkomið fólk sem kemur hingað, sérstaklega úr svona hörmulegu stríði sem er í Sýrlandi.

Að lokum vil ég ekkert gera nema biðja alla sem koma hingað frá Sýrlandi velkomna til Íslands. Friður sé með yður og öllu mannkyni: As-Salaamu 'aleykum wa'ala kulli in-Nas.