143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

aðstoð við sýrlenska flóttamenn.

318. mál
[15:36]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Ég vil þakka fyrir þessar umræður og jákvæðar undirtektir. Ég tek fram að ég er hjartanlega sammála þingmönnum sem vekja athygli á því hve hörmulegt það er að ekki takist að stöðva stríðið. Það voru dapurlegar fréttir sem við fengum frá Genf um helgina um að slitnað hefði upp úr samningaviðræðum. Það er verkefni út af fyrir sig fyrir heiminn að takast á við þá spurningu hvernig við förum að því að veita fólki skjól þegar ríkin geta ekki sinnt þeirri skyldu.

Það var sett niður nefnd á vegum Kanadastjórnar um aldamótin til að svara spurningum sem Kofi Annan, þáverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, setti fram um hvernig skyldi brugðist við þegar ríki gæti ekki veitt þegnum sínum skjól. Út kom skýrsla sem hét Ábyrgð til að vernda, „Responsibility to protect“. Hugsunin í skýrslunni, sem var afurð þessarar nefndar, var að það væri á ábyrgð einstakra ríkja að veita þegnum sínum vernd en þegar þau væru ekki fær um að sinna slíku hlutverki eða hefðu ekki vilja til þess hlyti skyldan að færast yfir á alþjóðasamfélagið. Það er náttúrlega að gerast í þessu máli.

Við stöndum frammi fyrir því, mér liggur við að segja ráðalaus, hvernig við eigum að bregðast við. Ekki viljum við hina hefðbundnu lausn, að varpa sprengjum yfir þessi þjóðfélög, eins og var ráðið og hefur ráðið lengstum og aldrei leitt af sér annað en meiri ófarnað. Hvað gerum við þá? Hvernig bregðumst við við? Þetta er viðfangsefnið sem við þurfum að takast á við. Við erum með Sameinuðu þjóðirnar sem búa enn við stjórnskipan og stofnanakerfi sem er meira í ætt við nýlendutíma 19. aldar og kalda stríð hinnar 20. en það sem við viljum kenna við lýðræðisþróun hinnar 21., öryggisráðið og þá tappa sem þar er að finna í allri þróun. Þetta er umræða sem við Íslendingar eigum að blanda okkur í eins og allar þjóðir heims, hvernig við förum að því að losa um þessa tappa og lýðræðisvæða Sameinuðu þjóðirnar og finna leiðir fyrir alþjóðasamfélagið til að taka á málum eins og þessum, reyna að þrýsta á stríðsaðila að láta af ofbeldinu gagnvart saklausu fólki eins og við verðum vitni að í Sýrlandi.

Það er hörmulegt til þess að vita að það séu 3 milljónir flóttamanna utan landamæra Sýrlands og rúmar 4 milljónir á vergangi innan landamæranna. Það eru 7–8 milljónir manna sem þarna eru í nauð og reyndar miklu fleiri, eins og kom fram í upplestri mínum á greinargerð með þingsályktunartillögunni, miklu fleiri sem þurfa á neyðaraðstoð að halda innan landamæranna en þarna kemur fram. Síðan er þetta farið að hafa áhrif á þessi lönd, gistiríkin, ekki síst ekki Líbanon sem á engan hátt er undirbúið eða hefur getu til að taka á móti öllu þessu fólki, innviði þess hreinlega skortir. Það á náttúrlega líka við um Jórdaníu og Tyrkland.

Ég endurtek að allir þeir sem ég hef rætt við og hafa komið á þessar slóðir og kynnt sér stöðu flóttamanna koma til baka nánast í taugalosti. Okkur ber að taka þau viðbrögð og það sem þeir sendiboðar segja okkur mjög alvarlega. Mér finnst gott til þess að vita að þeir sem hafa kvatt sér hljóðs um þetta mál taka undir tillögur okkar flutningsmanna. Það er vel. Ég vil þakka kærlega fyrir það.