143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að vekja athygli á söfnunar- og kynningarátaki sem er af svipuðum meiði og Mottumars og Bleika slaufan en hefur farið minna fyrir í umræðunni.

Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi líkt og annars staðar í heiminum. Átakið heitir Go Red og miðar að því að fræða konur um áhættuþætti og einkenni hjarta- og æðasjúkdóma og hvernig draga megi úr líkum á þeim sjúkdómum. Aukin vitund kvenna um áhættuþætti hefur einnig óbein áhrif á lífsstíl karla og ungmenna.

Go Red átakið er alheimsátak á vegum World Heart Federation, alþjóðlegt langtímaverkefni sem hófst í Bandaríkjunum og víða í Evrópu árið 2004. Það hefur verið haldið á Íslandi frá 2009.

Nokkrar staðreyndir af vef Hjartaverndar: Margar konur og karlar látast árlega af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Konur gera sér ekki grein fyrir eigin áhættu því að einkenni sjúkdómsins eru oftar óljósari hjá konum en körlum þannig að greiningarferli og áhættumat vegna hjarta- og æðasjúkdóma tefst oft.

Samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar eykst tíðni áhættuþátta hjá konum eftir 50 ára aldur, þar er helst um að ræða háan blóðþrýsting, hátt kólestról, sykursýki, ofþyngd og reykingar. Með hollu mataræði og reglubundinni hreyfingu má minnka líkur á flestum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.

Kynning á verkefninu hér á Íslandi verður í Kringlunni á laugardaginn kemur og mun þingmaður sá sem hér talar mæta uppáklæddur í tískufatnaði sem hluti af skemmtiatriðum til að leggja átakinu og konum á Íslandi lið gegn hjarta- og æðasjúkdómum.