143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Geir Jón Þórisson (S):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni samgöngumál okkar Vestmannaeyinga. Á okkur hefur mjög brunnið hversu illa hefur gengið að halda uppi siglingum Herjólfs til Landeyjahafnar. Þegar hún var tekin í notkun 21. júlí 2010 var sagt að Landeyjahöfn yrði aðalhöfn Herjólfs. Því miður virðast litlar breytingar á sandburði inn í höfnina allt fram á þennan dag og því er spurt: Getur það verið að höfnin sé ekki þannig úr garð gerð að komist verði hjá því að fá ómældan sand inn í höfnina? Alla vega nýtist ekki höfnin til siglinga Herjólfs allt of stóran part ársins. Þegar svo háttar siglir Herjólfur í Þorlákshöfn en þá hækka fargjöld þrefalt miðað við siglingar í Landeyjahöfn. Það er algjörlega óásættanlegt. Það er skýr krafa okkar Eyjamanna að nú þegar verði farið í framkvæmdir til að fullgera Landeyjahöfn og gera hana að heilsárshöfn.

Með öllu er ólíðandi að farþegar með Herjólfi greiði viðbótargjald vegna þess að Landeyjahöfn virkar ekki.

Hæstv. innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur sýnt samgöngumálum okkar Eyjamanna mikinn áhuga og verið öll af vilja gerð að bæta þar úr. Fyrir hennar tilstilli siglir nú Víkingur, útsýnisskip Viking Tours, í Landeyjahöfn þegar veður leyfir og má flytja 63 farþega í hverri ferð. Í dag hefur skipið flutt rétt tæplega þúsund farþega á 12 dögum sem skiptir stórum fyrir Vestmannaeyjar.

Þá hefur hæstv. innanríkisráðherra boðað að farið verði í útboð á nýjum Herjólfi og er það vel, en ljóst má vera að töluverðar lagfæringar þurfa að eiga sér stað í Landeyjahöfn. Hún þarf að virka allt árið og ekki síður en Þorlákshöfn. Í þær framkvæmdir þarf að fara strax, það er ekki eftir neinu að bíða. Höfnin þarf að vera tilbúin fyrir nýtt skip.